Viðskipti innlent

Jólamaturinn miklu dýrari í ár

Verð á jólamat hefur hækkað um tugi prósenta á milli ára. ASÍ segir að þegar bornar séu saman verðkannanirnar sem verðlagseftirlitið gerði í desember í fyrra og desember í ár, komi í ljós miklar hækkanir í öllum vöruflokkum. Verð á reyktu kjöti hafi til dæmis hækkað um allt að 41% í sumum verslunum.

Sem dæmi um miklar hækkanir á reyktu kjöti nefndi ASÍ að verð á birkireyktu úrbeinuðu hangilæri frá SS hefur hækkaði um 41% hjá Hagkaupum, 39% hjá Krónunni, 27% hjá Bónus, 16% hjá Nóatúni og 6% hjá Fjarðarkaupum. SS hangilærið er á sama verði og í fyrra hjá Samkaupum-Úrvali en hefur lækkað í verði um 7% hjá Nettó.

Aðrar hækkanir sem benda má á eru til dæmis kartöflur í lausu sem hafa hækkað um 39% hjá Nettó, 34% hjá Nóatúni, 33% hjá Bónus, 23% hjá Krónunni, 22% hjá Fjarðarkaupum en lækkað í verði um 4% hjá Hagkaupum. 600 gramma konfektkassi frá Nóa hefur hækkað í verði um 25% hjá Nóatúni, Samkaupum-Úrvali og Fjarðarkaupum, 14% hjá Nettó, 7% hjá Bónus og nánast staðið í stað hjá Hagkaupum. Vinsæl jólavara eins og tveggja lítra Egils appelsín hefur hækkað um 2-13% frá því í fyrra, minnst hækkaði appelsínið hjá Nettó eða úr 265 krónum í 269, eða um 2% en mest hækkaði það hjá Samkaupum-Úrvali úr 287 krónum í 324, eða 13%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×