Handbolti

HM 2011: Stelpurnar okkar klárar í slaginn gegn Rússum í Barueri

Sigurður Elvar Þórólfsson í Barueri skrifar
Stella Sigurðardóttir í leiknum gegn Kína.
Stella Sigurðardóttir í leiknum gegn Kína. Mynd/Pjetur
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta flutti sig um set í gær á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Brasilíu. Hópurinn yfirgaf strandborgina Santos og hefur nú komið sér fyrir í Barueri sem er rétt fyrir utan stórborgina Sao Paulo.

Í Barueri eru um 300.000 íbúar, en til samanburðar eru um 13-14 milljónir íbúar í Sao Paulo.

Ísland mætir heimsmeistaraliði Rússlands í dag, í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins. Íslenska liðið tók létta æfingu á ströndinni í Santos eldsnemma í morgun áður en haldið var í ferðalagið til Barueri sem tók um 3 tíma.

Leikmenn Íslands eru líkt og aðrir leikmenn á þessu heimsmeistaramóti aðeins lúnir eftir 5 leiki á 7 dögum. Stella Sigurðardóttir, einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins, er sannfærð um að Ísland geti strítt heimsmeistaraliði Rússa með góðri markvörslu og vörn.

„Mér finnst við hafa tekið miklum framförum frá því við lékum við þær í Danmörku í úrslitakeppni EM. Sá leikur fór 30-21. Þá var reynsluleysið mun meira en í dag hjá liðinu. Við höfum lært mjög mikið og hver leikur á þessu heimsmeistaramóti fer í reynslubankann. Ef við náum upp góðri vörn og markvörslu þá getur allt gerst," sagði Stella en hún er líkt og aðrir leikmenn Íslands frekar lúin eftir erfiða törn.

„Ég fann það vel í leiknum gegn Kína að ég var þreytt. Þetta er eitthvað sem við þurfum að læra af, það eru öll liðin í þessari stöðu og maður verður bara að gleyma álaginu og þreytunni á meðan þetta stendur yfir. Mér finnst tíminn hafa liðið ótrúlega hratt á þessu móti og við verðum bara að rífa okkur í gang gegn Rússum," sagði Stella Sigurðardóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×