Viðskipti innlent

Sala á Horni ein umfangsmesta sala á eignum almennings

Magnús Halldórsson skrifar
Fyrirhuguð sala Landsbankans á dótturfélaginu Horni er ein umfangsmesta sala á eignum í eigu almennings frá því bankarnir voru seldir fyrir um níu árum. Ekki liggur fyrir hvenær söluferli á félaginu, að hluta eða í heilu lagi, fer af stað.

Skattgreiðendur eru langsamlega stærstu eigendur Landsbankans með yfir 80 prósent eignarhlut. Sala á dótturfélagi bankans, fjárfestingarfélaginu Horni, sem fyrirhuguð er á næstu mánuðum, er því í reynd umfangsmikil sala á almenningseigum.

Samkvæmt síðasta birta árshlutareikningi Horns er eigið fé félagsins yfir 32 milljarðar króna, skuldir ríflega ellefu milljarðar og eignir um 42 milljarðar. Félagið er því með traustan efnahag.

Eignir félagsins eru margvíslegar. Samkvæmt opinberu eignasafni félagsins er eina skráða eign félagsins tæplega tveggja prósenta hlutur í Intrum sem skráð er á markað í Svíþjóð.

Óskráðar eignir eru hins vegar mun fleiri. Þar m.a. fjögur prósent hlutur í Eimskip, tæplega 14 prósenta hlutur í Eyri Invest, stærsta eiganda Marels, 6,5 prósenta hlut í Oslo Bors, félags sem heldur utan um Oslo Bors sem heldur utan um kauphallaviðskipti í Noregi, tæplega helmingshlutur í Promens og síðan umtalsverður hlut í Stoðum, en eignin skiptist í tæplega sjö prósent af A-hlutabréfum og rúmlega 42 prósent af B-hlutabréfum. Samtals gerir þetta tæplega 13 prósent af atkvæðabæru hlutafé félagsins.

Þessu til viðbótar á félagið síðan fleiri eignir, svo sem laust fé og ríkisskuldabréf.

Ekki liggur enn fyrir hversu stór hlutur verður seldur í Horni við skráningu né heldur hvenær hún fer fram. Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi bankans, segir að undirbúningsvinna sé enn í gangi en að henni lokinni muni liggja fyrir hvernig staðið verður að sölu á hlutum í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×