Viðskipti innlent

Sala áfengis jókst milli ára í nóvember

Sala áfengis jókst um 1,7% í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlag  Verð á áfengi var 3,8% hærra í nóvember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Þetta kemur fram í yfirliti frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að velta í dagvöruverslun jókst um 0,4% á föstu verðlagi í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra.. Verð á dagvöru hefur hækkað um 4,6% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Fataverslun dróst saman um 1,4% í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra en Verð á fötum hækkaði um 0,7% frá sama mánuði fyrir ári.

Velta skóverslunar jókst um 7,7%  og velta húsgagnaverslana jókst um 8,8% í nóvember frá sama mánuði í fyrra. Verð á húsgögnum var 4,8% hærra í nóvember síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra.

Velta sérverslana með rúm jókst um 37,1% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Velta í sölu skrifstofuhúsgagna dróst saman um 8,8% í nóvember síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi.

Í yfirlitinu segir að nokkur aukning varð í byrjun jólaverslunarinnar í nóvember. Sérstaklega á það við um raftækjaverslun sem jókst um 14,9% að raunvirði frá nóvember í fyrra. Verð á raftækjum hefur þokast niður á við undanfarin misseri og sala aukist frá árunum 2009 og 2010.

Þá er húsgagnaverslun farin að taka við sér eftir mikinn samdrátt á síðustu árum. Velta húsgagnaverslana hefur aukist um tæp 9% að raunvirði frá því fyrir ári síðan. Aðra sögu er að segja af fataverslun sem á enn í vök að verjast og hefur ekki náð sér á strik eftir að fór að halla undan fæti í kjölfar efnahagshrunsins. Svipaða sögu er að segja af skóverslun.

Sala á dagvöru í nóvember var að magni til mjög svipuð og í fyrra, óx um brot úr prósenti, en í krónum talið var veltuaukning rúm 5%. Aukin velta að nafnvirði stafar fyrst og fremst af verðbólgu sem er um 4,6% milli ára fyrir dagvöru í nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×