Viðskipti innlent

Kostnaður vegna örvandi lyfja hefur sjöfaldast frá 2003

Heildarkostnaður Sjúkratryggingar Íslands vegna tauga- og geðlyfja meir en tvöfaldaðist frá árinu 2003 og fram til ársins í fyrra. Í örvandi lyfjum hefur kostnaðurinn meir en sjöfaldast á þessu árabili.

Þetta kemur fram í svari velferðarráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur þingmanni Framsóknarflokksins á Alþingi.

Heildarkostnaðurinn fór úr rúmum 1,6 milljörðum króna árið 2003 og upp í tæpa 3,7 milljarða króna í fyrra.  Kostnaðaraukningin er mjög mismundandi milli lyfja en hún er mest eða ríflega sjöföld í örvandi lyfjum eins og ADHD sem notað er gegn ofvirkni og athyglisbresti. Kostnaður sjúkratrygginga vegna örvandi lyfja fór úr 97 milljónum króna árið 2003 og upp í 728 milljónir króna í fyrra.

Hinsvegar stóð kostnaðurinn við þunglyndislyf í stað, hann var 726 milljónir kr. árið 2003 og 739 milljónir kr. í fyrra.

Einnig má nefna að kostnaður við verkjalyf nær tvöfaldaðist á þessu tímabili og var orðinn tæplega 300 milljónir kr. í fyrra. Hér er aðeins átt við lyfseðilsskyld lyf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×