Viðskipti innlent

Skuldastaða heimilanna lækkað um 8%

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skuldastaða heimilanna hefur lækkað um tæplega 8%, eða 150 milljarða frá þriðja ársfjórðungi 2009. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika. Þar kemur fram að skuldir heimilanna fóru hæst upp í 129% af landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi 2009 en þær er í dag um 107% af ætlaðri landsframleiðslu ársins í ár. Þetta þýðir að skuldir heimilanna námu um 2000 milljörðum þegar mest var en nema núna um 1800 milljörðum.

Í Markaðspunktum Arion banka kemur fram að sértækar aðgerðir til lækkunar skulda, svo sem 110% leiðin, sem og endurútreikningur gengistryggðra íbúða- og bílalána skýri að mörgu leyti breytta skuldastöðu. Einnig má vera að hluti fólks hafi gengið í að greiða niður skuldir sínar líkt og samdráttur í peningamagni frá ágúst 2009 til mars 2011 bendir til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×