Viðskipti innlent

Róbert Wessman gaf skýrslu hjá sérstökum saksóknara

Yfirheyrslur hafa staðið yfir í allan dag hjá sérstökum saksóknara vegna rannsóknar á málefnum Glitnis. Á meðal þeirra sem gáfu skýrslu í dag var Róbert Wessman svo og núverandi og fyrrverandi starfsmenn Íslandsbanka.

Fjölmargir voru yfirheyrðir í tengslum við rannsóknina á málefnum Glitnis í dag. Þeirra á meðal var Ingi Rafnar Júlíusson, fyrrverandi starfsmaður bankans, sem hefur setið í gæsluvarðhaldi síðustu þrjá sólarhringa ásamt þeim Lárusi Welding, fyrrum forstjóra bankans, og Jóhannesi Baldurssyni, fyrrum framkvæmdastjóra markaðsviðskipta. Sérstaklega er verið að rannsaka meint brot sem falla undir markaðsmisnotkun sem grunur er um að staðið hafi yfir margra ára tímabil.

Fyrrverandi og núverandi starfsmenn bankans voru einnig boðaðir í skýrslutöku í dag. Þá mætti Róbert Wessman í morgun til skýrslutöku en félag hans Salt Investment keypti hlutabréf í Glitni fyrir sex milljarðar króna fáeinum dögum áður en ríkið tók yfir Glitni og fékk lán frá bankanum til þess. Róbert segir skýrslu eingöngu hafa verið tekna af honum sem vitni í málinu og að hans frumkvæði. Hann fagni jafnframt rannsókninni.

Í yfirlýsingu sem Salt Investment sendi frá sér í gær segir að félagið telji bankann hafa blekkt sig. Aðeins mánuði fyrir efnahagshrunið hafi Lárus Welding, þáverandi forstjóri Glitnis, fullyrt að staða bankans væri mun sterkari en raunin var og þar með blekkt fyrirtækið til að taka þátt í kaupunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×