Handbolti

HM 2011: Gaupi og Geir fóru yfir það hvernig stelpurnar fóru að þessu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta vann í gær sögulegan sigur á sterku liði Svartfellinga á HM kvenna í handbolta sem fer fram í Brasilíu. Þetta var fyrsti leikur íslensk kvennaliðs í heimsmeistarakeppni og það er óhætt að segja 22-21 sigur stelpnanna okkar í gær hafi fyllt íslensku þjóðina af stolti.

Geir Sveinsson og Guðjón Guðmundsson fóru yfir það í þætti Þorsteins J. Vilhjálmssonar eftir leikinn í gær hvernig íslensku stelpurnar fóru að því að koma öllum að óvörum og vinna þennan frábæra sigur.

„Stelpurnar voru að spila á móti einu besta landsliði heims og móti einu besta félagsliði heims því þær eru allar að spila með Buducnost í Svartfjallalandi. Leikur íslenska liðsins var stórkostlegur," sagði Guðjón Guðmundsson og bætti við:

„Hrafnhildur Skúladóttir var frábær í leiknum og Karen Knútsdóttir dró vagninn í seinni hálfleik. Svo átti markvörðurinn Guðný Jenný afbragðsgóðan leik," sagði Guðjón.

„Þetta var ekki eitthvað sem við áttum von á. Við töluðum um að möguleikarnir væru 30-70 eða 20-80 en stelpurnar einfaldlega snýttu okkur," sagði Guðjón.

Geir Sveinsson fór yfir lykilpunktana sem þeir lögðu upp fyrir leikinn að yrðu að ganga upp.

„Það var vörn og vörnin var frábær og markvarslan sömuleiðis. Við töluðum um að það yrði gríðarlega mikilvægt að stjórna tempóinu í leiknum og við náðum að gera það meira eða minna allan leikinn. Við fengum mjög lítið af hraðaupphlaupsmörkum á okkur þannig að tæknifeilarnir voru tiltölulega fáir," sagði Geir.

„Mér fannst alveg aðdáunarvert að horfa á þær og sjá hvað hungrið var mikið og sjálfstraustið var mikið. Það skein úr hverju einasta andliti að þær ætluðu að njóta þess að vera þarna og þær uppskáru í takt við það," sagði Geir.

Það má sjá samantekt þeirra Gaupa og Geirs með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×