Viðskipti innlent

Bjóða miða á starfsmannakjörum - 5000 krónur báðar leiðir auk skatta

Iceland Express hefur ákveðið að bjóða 4.576 flugmiða á svokölluðum starfsmannakjörum til almennings. Miðarnir fara í sölu á hádegi á morgun en um er að ræða ferðir nú í desember. Í tilkynningu frá félaginu segir að með tilkomu nýrra Airbus A320 flugvéla hafi sætaframboð félagsins aukist miðað við fyrri flugflota um tæplega fimm þúsund sæti í desembermánuði.

„Á sama tíma og skipt er um flugvélar er fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins að ljúka og stendur það nú vel til að mæta vaxandi samkeppni í farþegaflugi til og frá landinu. Þá hefur ný yfirstjórn félagsins stokkað upp í rekstri þess og áætlunum," segir ennfremur.

„Af þessu tilefni býður Iceland Express viðskiptavinum sínum og öðrum landsmönnum að kaupa 4.576 flugmiða, eða sem nemur aukasætum vegna stærri flugvéla í öllum ferðum félagsins í desember, á starfsmannakjörum. Aðeins eru þá greiddar 2.475 krónur hvora leið fyrir flugfarið auk flugvallarskatta. Með þessu vill félagið gefa fólki tækifæri til að kynnast þeim frábæra flugvélakosti sem Iceland Express býr nú yfir. Tilboðið gildir í tólf klukkustundir, frá hádegi mánudaginn 5. desember til miðnættis. Hægt er að nálgast miðana á vefsíðu félagsins eða í nýjum höfuðstöðvum þess í Ármúla 7."

Þá segir ennfremur að Airbus flugvélar CSA flugfélagsins séu yngstu farþegaflugvélarnar í áætlunarflugi til og frá Íslandi. „Þær taka 180 farþega en Boeing flugvélarnar sem áður voru mest notaðar í Evrópuflugi félagsins tóku 148 farþega. Þannig hefur sætaframboð aukist í hverri ferð um 32 sæti. Ákveðið hefur verið að bjóða þessi sæti á sömu kjörum og starfsfólki félagsins bjóðast sem svokallaðir frímiðar. Þetta er lægsta fargjald sem almenningi á Íslandi hefur nokkurn tíma boðist og reglan "fyrstur kemur, fyrstur fær" verður höfð að leiðarljósi við sölu sætanna," segir ennfremur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×