Handbolti

HM 2011: Agúst hefði frekar viljað vinna Angóla en Svartfjallaland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagný Skúladóttir.
Dagný Skúladóttir. Mynd/Pjetur
Stelpurnar okkar eiga erfiða leiki gegn Noregi í kvöld og svo Þýskalandi á morgun sem gætu haft mikið að segja um möguleika Íslands á að komast áfram í 16 liða úrslit keppninnar.

Ísland hefði með sigri á Angóla á sunnudagskvöld komið sér í efsta sæti A-riðils með fullt hús stiga eftir tvo leiki en liðið tapaði og er nú í næstneðsta sæti riðilsins. Ísland er með tvö stig, rétt eins og Noregur, Þýskaland og Svartfjallaland. Angóla er með fjögur stig í efsta sæti en Kínverjar í neðsta með ekkert.

Fjögur efstu liðin komast áfram í 16 liða úrslit keppninnar. Ísland á enn þrjá leiki eftir í riðlinum og því getur margt gerst. Ísland mætir í næstu tveimur leikjum sterkum andstæðingum – Noregi og Þýskalandi. Líklegt verður að teljast að Ísland þurfi að fá eitthvað úr þeim leikjum til að eiga enn möguleika á sæti í 16 liða úrslitunum áður en kemur að leiknum gegn Kína á föstudagskvöldið.

Ástæðan fyrir því er að ef Ísland og Angóla verða á endanum jöfn að stigum mun árangur í innbyrðisviðureignum ráða því hvort lið verður ofar í töflunni. Miðað við að Kína verði í neðsta sæti gæti það orðið til þess að Angóla endaði í fjórða sæti riðilsins og Ísland því fimmta.

Angóla á mjög erfiða leiki eftir í riðlinum og gæti hæglega endað með þau fjögur stig sem liðið er með núna. Ef Ísland tapar bæði fyrir Noregi og Þýskalandi duga tvö stig gegn Kína ekki til að komast upp fyrir Angóla í töflunni.

„Ef ég gæti skipt á leikjum myndi ég frekar vilja vinna þennan leik [en leikinn gegn Svartfjallalandi],“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari íslenska landsliðsins, eftir tapleikinn gegn Angóla. Þetta eru þó aðeins vangaveltur og miðað við úrslitin fyrstu tvo keppnisdagana er ljóst að það er aldrei hægt að útiloka óvænt úrslit í leikjum A-riðils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×