Viðskipti innlent

Vara fólk við því að falla í freistni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Neytendasamtökin gagnrýna harðlega nýjan jólaleik smálánafyrirtækisins Kredia sem auglýstur hefur verið, meðal annars í Ríkissjónvarpinu. Í frétt á vef Neytendasamtakanna kemur fram að leikurinn gengur út á að á hverjum degi fram að jólum er einn lántaki dreginn út og þarf hann ekki að greiða lán sitt til baka. Neytendasamtökin segjast telja það í hæsta máta óeðlilegt að stundaðir séu „leikir" sem ganga út á að fá fólk til að taka lán með von um að sleppa við endurgreiðslu.

Neytendasamtökin segja Kredia og Hraðpeninga vera smálánafyrirtæki sem bjóði neyslulán í stuttan tíma á okurvöxtum, eða allt að 600% á árs grundvelli. Að mati Neytendasamtakanna sé mikið ólán ef fólk þarf á þjónustu slíkra fyrirtækja að halda. Það veko því athygli samtakanna hversu mikið kapp sé lagt á markaðssetningu og að hvaða markhópi hún beinist helst.

Þá segja Neytendasamtökin að Kredia rökstyðji hvers vegna fólk ætti að láta það eftir sér að taka lán með því að segja að jólin séu bara einu sinni á ári. Samtökin minna á að það er ekkert ókeypis. Vinningar, hvaða nöfnum sem þeir nefnast, séu á endanum greiddir af viðskiptavinunum sjálfum. Jafnvel þó ekki sé tekin afstaða til þeirra okurvaxta sem þarna séu boði sé fólk varað við að falla í freistni og taka lán bara til að taka lán, hvorki á jólunum né aðra daga ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×