Innlent

Frumvarp ráðherra breyttist í þingnefnd

Fjárlagafrumvarpið var samþykkt á Alþingi í gær. Þingheimur hefur bætt við ríkisútgjöld og dregið úr niðurskurði frá því sem var að finna í frumvarpi fjármálaráðherra.

Frumvarp til fjárlaga 2012 var fyrsta mál sem lagt var fram á yfirstandandi þingi. Það fór, líkt og lög gera ráð fyrir, í gegnum þrjár umræður á Alþingi og tók við það fjölmörgum breytingum. Meirihluti fjárlaganefndar lagði til aukin útgjöld um 4,5 milljarða króna. Á móti er gert ráð fyrir að tekjur ríkisins aukist um 1,5 milljarða. Raunaukning útgjalda nemur því 3 milljörðum króna.

Breytingartillögur meirihlutans voru samþykktar í gær og að því loknu frumvarpið í heild sinni. Alls samþykkti 31 þingmaður frumvarpið en þrír voru á móti. 21 þingmaður sat hjá. Frumvarpið var því samþykkt með minnihluta atkvæða.
Velferðarmálin stærst



Alls nema útgjöld ríkissjóðs rúmum 536 milljörðum króna, en tekjur 523 milljörðum. Af því fer stærstur hlutinn í málefni velferðarráðuneytisins, eða 227 milljarðar króna. Útgjöld ráðuneytisins nema tæpum 43 prósentum af öllum ríkisútgjöldum.

Athygli vekur að næststærsti málaflokkurinn er vaxtagjöld. Alls fara 14,5 prósent af útgjöldum ríkissjóðs í þau. Það er mikil breyting frá því fyrir nokkrum árum, en ríkissjóður greiddi ekki krónu í vaxtagjöld árið 2007.

Aðrir stórir málaflokkar eru málefni mennta- og menningarmála sem eru 11,7 prósent ríkisútgjalda, 11,6 prósent fara í innanríkisráðuneytið og 9,6 í fjármálaráðuneytið.

140 milljarða viðsnúningur

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kom upp í pontu í atkvæðagreiðslunni í gær. „Ég er bærilega sáttur við heildarniðurstöðuna, liðlega 20 milljarða halli sem nemur um 1,16 prósentum af vergri landsframleiðslu. Jákvæður frumjöfnuður upp á liðlega 2 prósent af landsframleiðslu, eða um 35 milljarða afgangur frá reglubundnum rekstri ríkisins. Það er tæplega 140 milljarða bati á afkomu ríkisins frá reglubundnum rekstri miðað við árið 2009," sagði Steingrímur.

Hann sagði hagvaxtartölur Hagstofu Íslands frá í gær ýta undir forsendur fjárlaganna og gefa tilefni til þess að búast við kraftmeiri bata. Samkvæmt þeim nam hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi 4,7 prósentum og hagvöxtur að raungildi fyrstu níu mánuði ársins 3,7 prósentum.

Steingrímur sagði fjárlagafrumvarpið sýna einhvern mesta bata í hagkerfi sem sést hefði á Vesturlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×