Viðskipti innlent

Enn engin ákvörðun í Icesave málinu

ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur enn ekki tekið neina ákvörðun um það hvort mál verði höfðað gegn Íslandi vegna Icesave reikninganna. Þetta segir Trygve Mellvang-Berg upplýsingafulltrúi ESA í svari við skriflegri fyrirspurn Vísis. Hann vill lítið tjá sig um það hvaða áhrif 400 milljarða króna greiðsla út úr þrotabúi gamla Landsbankans í gær hafi á stöðu Icesavemálsins.

„Við teljum að greiðslan sé í takti við þær upplýsingar sem við fengum í skriflegu svari frá íslenskum stjórnvöldum við rökstuddu áliti ESA frá því í sumar. Enn hefur engin ákvörðun verið tekin varðandi næstu skref í málinu," segir Mellvang-Berg í svari til Vísis.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vildi í samtali við Vísi í gær ekkert spá fyrir um framhald málsins, en sagði að útgreiðslurnar úr þrotabúinu ættu að hafa góð áhrif á andrúmsloftið. „Það er að sjálfsögðu bara jákvætt og gott að kröfuhafarnir eru að fá fyrsta skammtinn - stóran skammt. Ég held að þetta ætti að hafa frekar heillavænleg áhrif á andrúmsloftið í kringum þetta allt saman," sagði Steingrímur.


Tengdar fréttir

Ótímabært að spá um hvort Íslandi verður stefnt

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að útgreiðslur á rúmlega 400 milljörðum íslenskra króna út úr þrotabúi Landsbankans hljóti að hafa góð áhrif á andrúmsloftið í kringum Icesavemálið. Hann vill ekkert spá fyrir um það hvort Eftirlitsstofnun EFTA muni stefna Íslendingum fyrir EFTA dómstólnum eins og óttast hefur verið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×