Viðskipti innlent

Ótímabært að spá um hvort Íslandi verður stefnt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að útgreiðslurnar ættu að róa fólk.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að útgreiðslurnar ættu að róa fólk.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að útgreiðslur á rúmlega 400 milljörðum íslenskra króna út úr þrotabúi Landsbankans hljóti að hafa góð áhrif á andrúmsloftið í kringum Icesavemálið. Hann vill ekkert spá fyrir um það hvort Eftirlitsstofnun EFTA muni stefna Íslendingum fyrir EFTA dómstólnum eins og óttast hefur verið.

„Það er að sjálfsögðu bara jákvætt og gott að kröfuhafarnir eru að fá fyrsta skammtinn - stóran skammt. Ég held að þetta ætti að hafa frekar heillavænleg áhrif á andrúmsloftið í kringum þetta allt saman," segir Steingrímur. Hann segir að þetta hafi verið það sem íslenska samninganefndin hafi lagt upp með í fyrstu Icesave samningunum. „Að eignir Landsbankans yrðu notaðar í þetta uppgjör en ekki að við ábyrgðumst eitthvað sjálfstætt lán óháð þeim. Þannig að þetta er þá bara í raun og veru í samræmi við þá aðferðarfræði sem við vildum beina málinu í, að menn horfðu á eignir búsins og það væru þær sem væru notaðar í þetta," sagði Steingrímur.

Steingrímur býst við því að umræðan róist nú þegar menn sjá menn að þessar eignir eru að byrja að skila endurgreiðslum. „Sérstaklega á það við um ótryggðu aðilana sem ekki fengu greitt í gegnum hollenska seðlabankann og tryggingasjóð Breta. Sérstaklega hlýtur þetta nú að vera stór dagur fyrir þá því þeir hafa ekkert fengið til baka fram að þessu," segir Steingrímur. Hann bendir jafnframt á að hollenski seðlabankinn og breski tryggingasjóðurinn séu að fá þriðjung af þeim greiðslum sem tryggðir innistæðueigendur fengu frá þessum stofnunum eftir að Icesave reikningunum var lokað. En þeir séu ekki bara að fá lágmarkstryggingaupphæðina greidda heldur líka viðbótargreiðsluna sem þessar stofnanir greiddu innistæðueigendum. „Þeir eru að fá þarna líka upp í þann stóra reikning sem þeir greiddu umfram lámarkstrygginguna þannig að þetta eru miklir hagsmunir fyrir þá. Þannig að ég held að það sé tvímælalaust þannig að þetta hljóti að hafa góð áhrif á þetta leiðindamál allt saman," segir Steingrímur.

Aðspurður vill Steingrímur ekkert spá fyrir um það hvort ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, muni stefna Íslendingum eða ekki vegna Icesave málsins. „Við vitum bara hvernig málið stendur. Það er hjá ESA og það er algjörlega í þeirra höndum hvað þeir gera, hvenær og hvernig," segir Steingrímur að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×