Viðskipti innlent

Reuters: Íslendingur tengist stóru alþjóðlegu fjársvikamáli

Reuters fjallar ítarlega um þátt Viggós Þórissonar fyrrum framkvæmdastjóra Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna í umfangsmiklu alþjóðlegu fjársvikamáli sem teygir anga sína til fleiri landa.

Fjársvikunum var stjórnað af Bandaríkjamanninum David Spargo sem er eftirlýstur vegna fjársvika í Arizona, Texas og Virginíu og er til rannsóknar í fleiri löndum m.a. Bretlandi og Ítalíu.

Þáttur Viggós Þórissonar í þessu máli snýr að skuldabréfaútgáfu á vegum félagsins Napis sem Spargo átti. Útgáfan nam 700 milljónum dollara eða um 83 milljörðum króna. Viggó mun hafa falsað skjöl sem síðan sýndu að Verðbréfaþjónusta sparisjóðanna væri bakhjarl að þessum skuldabréfum.

Viggó mun m.a. hafa reynt að svíkja fé af Royal Bank of Scotland með þessum fölsuðu skjölum. Fram kemur að lögreglan í Skotlandi hafi yfirheyrt samstarfsmann Viggós í þeim fjársvikum að beiðni íslensku lögreglunnar.

Rannsókn á málinu hér á Íslandi hófst árið 2007 og hefur Viggó verið í farbanni síðan. Réttarhöld eru framundan í héraðsdómi.

Fram kemur að hann og Spargo séu gamlir félagar frá því að Viggó stundaði nám við háskólann í Arizona fyrir tæpum 20 árum síðan.

Umfjöllun Reuters er liður í greinarflokki fréttaveitunnar um fjármálaglæpi í Bandaríkjunum og víðar í heiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×