Viðskipti innlent

Allt í hnút í makríldeilunni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tómas H. Heiðar er aðalsamningamaður Íslands í deilunni.
Tómas H. Heiðar er aðalsamningamaður Íslands í deilunni.
Ekki náðist samkomulag um skiptingu aflaheimilda í makrílveiðum á Norðaustur-Atlantshafi á næsta ári á fundi strandríkjanna fjögurra, Íslands, ESB, Noregs og Færeyja, sem lauk í dag. Fundurinn var haldinn í Clonakilty á Írlandi og hófst á þriðjudaginn.

Á fundinum lögðu ESB og Noregur fram tillögu um skiptingu aflaheimilda milli strandríkjanna fjögurra. Tómas H. Heiðar, formaður samninganefndar Íslands, segir að tillagan hafi verið algjörlega óraunhæf. Hún hafi falið í sér skref aftur á bak frá undanförnum fundum og valdið slenskum stjórnvöldum miklum vonbrigðum.

„Í ljósi þess að ekki virtist mögulegt að ná samkomulagi um framtíðarstjórnun makrílveiðanna lagði Ísland til bráðabirgðalausn í því skyni að tryggja verndun stofnsins. Fólst hún í því að aðilar myndu virða ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um leyfilegan heildarafla ársins 2012, 639.000 tonn, og halda núverandi hlutdeild sinni í veiðunum. Hinir aðilarnir voru ekki reiðubúnir að fallast á tillöguna,“ segir Tómas Heiðar í tilkynningu til fjölmiðla.   

Í ljósi framangreinds liggur fyrir að hlutdeild Íslands í makrílveiðunum á næsta ári verður óbreytt, um 16%, en aflaheimild Íslands mun taka mið af örlítilli lækkun á ráðgjöf ICES milli ára. ICES lagði til 646.000 tonna heildarafla á þessu ári en leggur til 639.000 tonna heildarafla á næsta ári. Kvóti Íslands á þessu ári var 146.818 tonn.

Íslensk stjórnvöld ætla áfram að leggja ríka áherslu á að ná samkomulagi um stjórnun makrílveiðanna til að tryggja sjálfbærar veiðar og koma í veg fyrir frekari ofveiði úr stofninum. Ísland er því reiðubúið að halda áfram að leggja sitt af mörkum til að ná samkomulagi í samstarfi við hin strandríkin. Náist samkomulag aðila á næstunni verður framangreind ákvörðun tekin til endurskoðunar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×