Viðskipti innlent

Stjórnendur Haga fá góð kjör - Guðmundur með þriggja ára uppsagnafrest

Magnús Halldórsson skrifar
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri hjá smásölurisanum Högum, er með þriggja ára uppsagnarfrest hjá fyrirtækinu, samkvæmt skráningarlýsingu fyrir félagið sem birt var í dag. Útboð á 20 til 30% hlut í Högum fer fram í byrjun næsta mánaðar.

Það verður ekki annað sagt en að stjórnendur smásölurisans Haga, sem m.a. rekur bæði Bónus og Hagkaup, njóti góðra kjara samkvæmt upplýsingum úr skráningarlýsingu félagsins, sem birt var í morgun.

Þar kemur m.a. fram að einn framkvæmdastjóra hjá félaginu, Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, sé með 36 mánaða uppsagnarfrest, eða sem jafngildir þremur árum.

Aðrir stjórnendur eru hins vegar með mun styttri frest, eða sex til tólf mánuði. Fimm stjórnendur félagsins eiga 1,4 prósent af heildarhlutafé félagsins, sem er virði um 170 milljóna króna miðað við síðasta viðskiptagengi með bréf félagsins, en bréfin fengu þeir endurgjaldslaust frá Arion banka.

Stjórnendurnir sem um ræðir eru Finnur Árnason, forstjóri Haga, Guðmundur Marteinsson, Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana, og Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri Aðfanga.

Í skráningarlýsingunni kemur fremur fram að greiddar hafi verið samtals ríflega 110 milljónir króna í maí 2010, til tveggja framkvæmdastjóra og fjögurra millistjórnenda, á grundvelli kaupréttar- og sölusamninga sem gerðir voru árið 2007. Þar af námu greiðslur til Gunnars Inga Sigurðssonar 46 milljónum og greiðslur Lárusar Óskarssonar 27,6 milljónum.

Sá eini sem er meðal æðstu stjórnenda félagsins sem ekki á bréf í félaginu er fjármálastjórinn Guðrún Eva Gunnarsdóttir, en hún er jafnframt regluvörður félagsins.

Útboð Haga, þar sem 20 til 30 prósent af heildarhlutafé verður selt, fer fram 5. til 8. desember nk. en rekstur félagsins hefur gengið vel undanfarin ár, að því er greint er frá í skráningarlýsingunni.


Tengdar fréttir

Hagar keyptu í 365 fyrir 810 milljónir eftir hrun

Hagar keyptu hlut í 365 miðlum ehf. fyrir 810 milljónir króna skömmu eftir bankahrun og fjármögnuðu það með handbæru fé frá rekstri. Helmingur fjárfestingarinnar var seldur Jón Ásgeiri Jóhannessyni, þáverandi aðaleiganda Haga, innan sama fjárhagsárs á sama gengi, eða 405 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×