Viðskipti innlent

Hagar keyptu í 365 fyrir 810 milljónir eftir hrun

MH og ÞSJ skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Hagar keyptu hlut í 365 miðlum ehf. fyrir 810 milljónir króna skömmu eftir bankahrun og fjármögnuðu það með handbæru fé frá rekstri. Helmingur fjárfestingarinnar var seldur Jón Ásgeiri Jóhannessyni, þáverandi aðaleiganda Haga, innan sama fjárhagsárs á sama gengi, eða 405 milljónir króna.

Hinn helmingurinn, sem upphaflega kostaði 405 milljónir króna, var seldur fyrir andvirði undir 100 milljónir króna til 365 miðla, aðila fjárhagslega tengdum Jóni Ásgeiri. Hagar töpuðu því um 300 milljónum króna á viðskiptunum. Þetta kemur fram í skráningarlýsingu Haga sem birt var í morgun. Þar segir einnig að öll viðskiptin séu að fullu uppgerð.

Kaupin áttu sér stað 2. nóvember 2008, um mánuði eftir bankahrun. Þá var greint frá því að hópur fjárfesta undir stjórn Jóns Ásgeirs hefði greitt 1,5 milljarða króna inn í 365 og keypt allt hlutafé í 365 miðlum undir merki nýs fjölmiðlafélags, sem hét þá Rauðsól. Auk þess tók hópurinn yfir skuldir upp á 4,4 milljarða króna. Rauðsól, sem hét einnig um tíma Sýn, var síðan sameinað 365 miðlum haustið 2009.

Árni Hauksson, sem í dag á stóran hlut í Högum, sat í stjórn 365 þegar kaupin áttu sér stað. Hann, einn stjórnarmanna, greiddi atkvæði gegn sölunni og sagði sig í kjölfarið úr stjórn 365.

Ingibjörg S. Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, er í dag aðaleigandi 365 miðla. Hún á 90% af A hlutabréfum í félaginu og 100% af B hlutabréfum. 365 miðlar eiga og reka m.a. Fréttablaðið, Vísi, Stöð 2 og Bylgjuna.

Skráningarlýsingu Haga má sjá hér að neðan.

https://newsclient.omxgroup.com/cdsPublic/viewDisclosure.action?disclosureId=480099&messageId=586780






Fleiri fréttir

Sjá meira


×