Íslenski boltinn

KFR og KV upp í 2. deild

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Knattspyrnuliðin KFR og KV tryggðu sér í kvöld sæti í 2. deild karla en liðin höfðu betur í sínum viðureignum í undanúrslitum 3. deildarinnar.

Mikil spenna var í viðureign KB og KFR á Leiknisvelli í kvöld en á endanum dugði Rangæingum 2-2 jafntefli. Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli og hafði KFR því betur með því að skora fleiri mörk á útivelli.

Gunnar Wigelund kom KB yfir á 37. mínútu en Þórhallur Lárusson jafnaði metin fyrir KFR aðeins sex mínútum síðar eftir því sem kemur fram á Fótbolti.net.

Reynir Björgvinsson kom svo KFR yfir með marki stuttu eftir að síðari hálfleikur hófst. Sigurður Nikulásson jafnaði metin fyrir KB á 55. mínútu en það dugði ekki til.

KV vann fyrri leikinn gegn Magna örugglega, 7-1, og því nánast formsatriði að klára leikinn í kvöld. Honum lauk með 3-3 jafntefli í Grenivíkurvelli, heimavelli Magna.

Leikurinn fór fram við erfiðar aðstæður eftir því sem kemur fram á Fótbolti.net enda hefur snjóað fyrir norðan í dag. Það var kalt og hvasst auk þess sem að gekk á með rigningu og éljum.

Segir í fréttinni að leikmenn hafi allir farið í sturtu í hálfleik til að ná líkamshitanum upp og að sumir hafi klæðst þreföldum búningum.

Úrslitaleikur deildarinnar fer fram á laugardaginn, sem og leikur um þriðja sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×