Viðskipti innlent

Gengið notað til verðhækkana en ekki lækkana

„Önnur áhugaverð niðurstaða rannsóknarinnar snýr að ósamhverfum áhrifum gengisbreytinga á verð. Í ljós kemur að fyrirtæki voru mun líklegri til þess að hækka verð eftir gengisfall en lækka það eftir gengisstyrkingu. Sérstaka athygli vekur að þriðjungur fyrirtækja sem voru ekki útsett með beinum hætti fyrir gengisbreytingum hækkuðu verð sitt eftir 30% gengislækkun á fyrri hluta ársins 2008 á meðan ekkert þeirra lækkaði verðið í kjölfar 10% gengisstyrkingar ári fyrr.“

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um nýútkomna rannsóknarritgerð sem unnin er á vegum Seðlabankans sem gefur mikilvæga innsýn í verðlagningu íslenskra fyrirtækja á vörum og þjónustu. Sér í lagi hversu mikil og ósamhverf áhrif gengisbreytinga eru á verðlagningu hér á landi.

Í Morgunkorninu segir að á styður skýrslan við aðrar nýlegar rannsóknir sem sett hafa spurningarmerki við ábata þess að reka sjálfstæða peningastefnu í íslensku hagkerfi.

Í ritgerðinni eru dregnar þær ályktanir að útbreidd verðtrygging, mikið vægi liðinnar verðþróunar við verðákvarðanir íslenskra fyrirtækja og lítil trú stjórnenda þeirra á getu Seðlabankans til þess að viðhalda verðstöðugleika geri peningamálastjórnun hér á landi erfiðari en ella, auk þess sem mikil og ósamhverf gengisáhrif á verðbólgu séu ekki til þess fallin að létta það verk.

„Telja höfundar að niðurstöðurnar séu til þess fallnar að draga í efa ábatann af því að reka sjálfstæða peningastefnu með fljótandi gjaldmiðli á jafn litlu myntsvæði þar sem aðstæður eru með framangreindum hætti,“ segir í Morgunkorninu.

„Verði slíkt samt sem áður reynt, beri að gera ráðstafanir til þess að auka trúverðugleika og auka samkeppni á markaði í því skyni að gera peningastjórnunina viðráðanlegri, ella sé hætt við að áhrifamáttur Seðlabankans á væntingar einkaaðila verði áfram takmarkaður og verðbólga eftir því sveiflukennd.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×