Viðskipti innlent

Tæplega 2000 árangurslaus fjárnám

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. Mynd/Pjetur
Gert var árangurslaust fjárnám í hátt í tvö þúsund fyrirtækjum á fyrstu þremur mánuðum ársins. Það er meira en tvöföldun frá árinu áður

Þetta kemur fram í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika Seðlabankans, en þar segir að sterkar vísbendingar séu um aukna innheimtu, sem kunni að vera nauðsynleg til að flýta slitum á ólífvænlegum fyrirtækjum. Á seinni helmingi síðasta árs voru gerð rétt tæplega 3.500 árangurslaus fjárnám hjá fyrirtækjum, samanborið við um þúsund á sama tíma árið 2009.

Fyrstu mánuðir þessa árs benda sömuleiðis til aukinnar innheimtu, en í janúar, febrúar og mars voru gerð rétt tæplega 2000 árangurslaus fjárnám, sem er um 160% aukning frá árinu áður. Fjöldi gjaldþrota er um 430 á sama tímabili, sem bendir til þess að innheimtu ljúki oft með árangurslausu fjárnámi, án þess að fyrirtæki séu tekin til gjaldþrotaskipta. Hugsanlega er það gert til að forðast kostnað við gjaldþrotaskiptin.

Eins og Vísir greindi frá í gær eru fyrirtækjalán í alvarlegum vanskilum um 45% af heildarvirði útlána til fyrirtækja, en í fjármálastöðugleikanum er margt sem bendir til þess að mörg heimili séu sömuleiðis ofskuldsett. Tæplega 25 þúsund einstaklingar voru á vanskilaskrá í lok apríl 2011 og hefur sá fjöldi farið hratt vaxandi síðustu mánuði.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að myndin af skuldum fyrirtækja sé skekkt, meðal annars þar sem stök alþjóðleg fyrirtæki starfa hér á landi og bera miklar skuldir ein og sér. „Nú varðandi heimilin þá er náttúrulega ljóst að þau verða skuldsettari fyrir góðærið má segja og það mun þýða það að einkaneyslan verður minna heldur en ella. En það er ekki þarf með sagt að hér geti ekki orðið hagvöxtur og það er þegar komin af stað hagvöxtur. Bara muna það næst þegar við tökum lán þá þarf að greiða það niður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×