Viðskipti innlent

Flýta rannsóknarborunum á Norðausturlandi

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Mynd/Stefán
Stjórnir Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. hafa ákveðið að auka verulega við rannsóknir vegna undirbúnings jarðgufuvirkjana á Norðausturlandi í sumar. Markmiðið er að flýta öflun upplýsinga um afkastagetu jarðhitasvæðanna í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum til að mæta aukinni eftirspurn væntanlegra orkukaupenda á svæðinu.

Þeistareykir ehf. eru í eigu Landsvirkjunar, Orkuveitu Húsavíkur og Þingeyjarsveitar. Framkvæmd rannsóknarborana er háð tilskyldum leyfisveitingum.

Samanlagður kostnaður Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. vegna aukinna rannsókna í sumar er um 500 milljónir króna, að því er fram kemur í tilkynningu. Þegar hafði verið tilkynnt um fjárfestingar fyrir 1,5 milljarð króna á Norðausturlandi fyrr á þessu ári.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir miklar vonir bundnar við umræddar framkvæmdir. „Þetta eru fyrstu rannsóknarboranir á Þeistareykjum í þrjú ár og við bindum miklar vonir við að þær muni styrkja enn frekar þann þekkingargrunn sem byggður hefur verið upp á svæðinu á umliðnum árum."

Þá segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, að um mikilvægt skref sé að ræða. „Þetta eru jákvæð tíðindi og stórt skref í þá átt að byggja upp orkufrekan iðnað í Þingeyjarsýslum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×