Viðskipti innlent

Ríkið reynir brátt 82 milljarða útgáfu á erlendum markaði

Búast má við að fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn fari á stúfana á næstu vikum að vinna fyrstu útgáfu erlendra skuldabréfa ríkissjóðs frá hruni brautargengis.  Greining Íslandsbanka telur líklegt að fyrsta útgáfan verða á þriðja ársfjórðungi ársins. Upphæðin yrði um 500 milljónir evra eða um 82 milljarða kr.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að stjórnvöld hafi nú tvær lánshæfiseinkunnir í fjárfestingarflokki upp á vasann eftir að í ljós kom að S&P og Moody's munu ekki lækka erlenda einkunn ríkissjóðs að sinni.

„Við teljum líklegt að reynt verði að ýta slíkri útgáfu úr vör á þriðja fjórðungi ársins og að stjórnvöld leitist við að afla a.m.k. 500 milljóna evra eða sambærilegrar fjárhæðar í dollurum á þessu ári,“ segir í Morgunkorninu.

„Takist það verður hægt að endurfjármagna þann hluta gjaldeyrisforða Seðlabankans sem nú er fjármagnaður með tveimur skuldabréfum sem eru á gjalddaga í desember á þessu ári og apríl á næsta ári. Af fyrrnefnda bréfinu eru nú tæplega 290 milljónir evra  útistandandi en 165 milljónir evra af hinu síðara. Samtals eru því 455 milljónir evra, jafnvirði tæpra 75 milljarða kr., erlendra skulda á gjalddaga næstu 12 mánuði auk vaxta.“

Þá segir að hin fyrirhugaða útgáfa hefur þó fjölbreyttari tilgang en bara að mæta yfirvofandi gjalddögum. Hún mun þannig væntanlega ryðja brautina fyrir útgáfur annarra innlendra aðila á borð við Landsvirkjun. Auk heldur er mikilvægt fyrir árangursríka afléttingu gjaldeyrishafta að sýnt sé fram á að íslensk stjórnvöld hafi aðrar leiðir til að afla gjaldeyris en eingöngu það lánsfé sem fengist hefur með efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda.

„Fróðlegt verður að fylgjast með þeim kjörum sem ríkissjóði munu standa til boða þegar til kastanna kemur í útboði bréfanna. Þau kjör munu væntanlega mynda grunn af þeim lánskjörum sem aðrir innlendir aðilar geta vænst í kjölfarið,“ segir í Morgunkorninu.

„Við erum þeirrar skoðunar að full bjartsýnt geti verið að miða vænt álag ríkisskuldabréfa í erlendri mynt við skuldatryggingaálag eins og það kemur fram hjá erlendum gagnaveitum. Skuldatryggingaálagið hefur litast af miklum uppkaupum á útistandandi erlendum útgáfum ríkissjóðs undanfarið ár. Ekki má gleyma því að skuldatryggingaálagið er í grunninn verðlagning á tryggingu gegn greiðslufalli.

Þegar undirliggjandi eign er keypt til baka minnkar að sama skapi þörf fyrri eiganda fyrir tryggingu og myndar það söluþrýsting á skuldatryggingarnar. Skuldatryggingaálag til 5 ára stendur nú í 207 punktum og má telja harla gott ef ríkissjóður nær sambærilegum kjörum á útgáfu sína á seinni helmingi ársins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×