Viðskipti innlent

Gosið lækkar hluti í Icelandair um 7,4%

Gengi flestra evrópskra flugfélaga hefur lækkað nokkuð það sem af er degi eða um 3-5%. Gengi bréfa Icelandair hafa lækkað um 7,4% það sem af er morgni. Icelandair segir í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í morgunað tjón Icelandair Group verði ekki verulegt og að afkomuspá ársins, 9,5 milljarða kr. EBITDA, haldist óbreytt. Þess má geta að metið tap félagsins vegna gossins í Eyjafjallajökli á síðasta ári var um 1,5 milljarðar kr.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þrátt fyrir að eldgosið í Grímsvötnum sem hófst síðastliðinn laugardag hafi verið mjög öflugt í byrjun er talið ólíklegt að það muni hafa sömu áhrif á ferðaþjónustuna og gosið í Eyjafjallajökli í fyrra. Askan í gosinu er þyngri en í Eyjafjallajökli og því líklegt að hún dreifist ekki eins víða. Þegar virðist hafa dregið úr krafti gossins og gefur það viss fyrirheit um að gosið gæti staðið stutt.

Gosmökkurinn sem hæst fór í 25 km. hæð er nú í um 10 km. Gosið er hins vegar enn öflugt. Gosin í Grímsvötnum hafa yfirlitt verið stutt og gæti það sagt eitthvað um þróun gosins nú. Ómögulegt er samt að segja til um það með vissu hversu hratt gosið muni réna.

Allt flug hefur legið niðri hér á landi síðan í gærmorgun. Með breyttri vindaátt er hins vegar reiknað með því nú að aftur verið hægt að hefja flug síðdegis í dag. Breytt vindátt gæti hins vegar valdið því að aska dreifist til meginlands Evrópu. Reiknað er með að gosaska nái ströndum Skotlands í kvöld og eru flugfélög og stjórnvöld í viðbragðsstöðu. Ólíklegt er hins vegar talið að áhrifin á flugumferð í Evrópu verði eitthvað í líkingu við það sem þau voru í gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra en þá lokaðist fyrir flugumferð víða í Evrópu í allt að 6 daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×