Handbolti

Rhein-Neckar Löwen tapaði fyrir Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson skorar hér í leiknum í dag.
Ólafur Stefánsson skorar hér í leiknum í dag. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Barcelona komst í dag í úrslitaleik Meistaradeildarinnar eftir 30-28 sigur á Rhein-Neckar Löwen í undanúrslitaleik liðanna í Lanxess Arena í Köln. Barcelona lagði gruninn að sigrinum með því að skora fimm mörk í röð um miðjan seinni hálfleik.

Ólafur Stefánsson skoraði fjögur mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen en Róbert Gunnarsson og Guðjón Valur Sigurðsson fengu ekkert að spreyta sig hjá Guðmundi Guðmundssyni. Uwe Gensheimer var markahæstur í liði Löwen með sjö mörk.

Barcelona byrjaði leikinn mun betur og komst í 4-0. Ólafur Stefánsson skoraði fyrsta mark Rhein-Neckar Löwen eftir 7 mínútur og 15 sekúndur.

Rhein-Neckar Löwen vann sig inn í leikinn og náði að jafna í 10-10 með tveimur hraðaupphlaupsmörkum í röð en Barcelona náði aftur tveggja marka forskoti, 12-10.

Rhein-Neckar Löwen skoraði hinsvegar tvö síðustu mörk hálfleiksins og staðan var því 12-12 í hálfleik.

Ólafur Stefánsson skoraði 2 mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen í fyrri hálfleik en Andy Schmid var markahæstur með þrjú mörk. Slawomir Szmal varði 10 skot í fyrri hálfleiknum.

Rhein-Neckar Löwen byrjaði seinni hálfleikinn vel og var 19-18 yfir um hann miðjan. Þá náði Barcelona frábærum 7-1 spretti þar sem liðið skoraði meðal annars fimm mörk í röð.

Rhein-Neckar Löwen náði að minnka muninn nokkrum sinnum í tvö mörk á lokakafla leiksins en tókst ekki að komast nær og spilar liðið því um þriðja sætið á morgun.

Barcelona mætir annaðhvort HSV Hamburg eða BM Ciudad Real í úrslitaleiknum á morgun en þau spila undanúrslitaleik sinn seinna í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×