Handbolti

Barcelona vann líka Meistaradeildina í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jesper Nöddesbo.
Jesper Nöddesbo. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Handboltalið Barcelona fylgdi í dag í fótspor knattspyrnuliðs félagsins frá því í gær með því að tryggja sér sigur í Meistaradeild Evrópu. Barcelona vann öruggan þriggja marka sigur á Ciudad Real, 27-24, í uppgjör tveggja spænskra liða í úrslitaleiknum í Köln.

Barcelona tók frumkvæðið strax í byrjun leiks, var 14-10 yfir í hálfleik og komst mest sjö mörkum yfir í leiknum.

Daninn Jesper Nöddesbo var markahæstur hjá Barcelona með 8 mörk úr 9 skotum en maður leiksins var bosníski markvörðurinn Danijel Saric sem varði 24 skot í þessum leik.

Xavier Pascual, þjálfari Barcelona, gerði því liðið að tvöföldum meisturum því liðið varð einnig spænskur meistari á dögunum.

Barcelona hefur unnið Evrópukeppni meistaraliða oftast allra liða en þetta var áttundi titill félagsins en jafnframt sá fyrsti síðan 2005. Ciudad Real vann Meistaradeildina þrisvar sinnum með Ólaf Stefánssyni innanborðs en hefur ekki unnið hana án hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×