Viðskipti innlent

S&P: Ísland af athugunarlista en horfur áfram neikvæðar

Matsfyrirtækið Standard & Poor´s staðfesti í dag óbreytta lánshæfiseinkunn fyrir skuldbindingar Ríkissjóðs Íslands í erlendum gjaldeyri. Einkunn fyrir innlendar skuldbindingar var hins vegar lækkuð um eitt hak, í BBB- úr BBB.

Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu hafa einkunnir ríkissjóðs nú verið teknar af athugunarlista en þær voru settar á hann um miðjan apríl síðastliðinn. Matshorfurnar verða hins vegar áfram neikvæðar.

Að mati fyrirtækisins hefur dregið úr hættu á að Ríkissjóður Íslands lendi í vandræðum vegna erlendrar lánsfjármögnunar. Þá telur fyrirtækið að ríkissjóður hefði minna svigrúm til fjármögnunar innanlands ef gjaldeyrishafta nyti ekki við.

Samkvæmt spá Standard & Poor's er talið að hagvöxtur verði á Íslandi á árinu 2011 eftir yfir 10 prósenta samdrátt árin 2009-2010. Einnig er talið að ríkissjóður muni skila afgangi á þessu ári. Neikvæðar horfur á matinu endurspegla hins vegar hættu á að efnahagsbati og skuldalækkun ríkissjóðs verði ekki sem skyldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×