Viðskipti innlent

S&P lækkar lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.
Standard og Poor's hefur lækkað lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar í kjölfar þess að fyrirtækið lækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Að því er fram kemur í tilkynningu hjá félaginu eru horfurnar neikvæðar hjá báðum aðilum.

Lánshæfiseinkunn Landsvirkjunnar var lækkuð úr BB+ Í BB . Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunnar, segir þetta hafa einhver áhrif á fyrirtækið en rekstur þess sé þó stöðugur.

,,Af þeim verkefnum sem við erum með í gangi núna mun þetta ekki hafa nein áhrif því við erum búin að fjármagna Búðarhálsvirkjun. Við erum með óbreytt mat hjá Moody's svo það þarf bara að skoða þetta í heild sinni. Áhrifin eru samt neikvæð."

Engu að síður telur Hörður að hægt verði að tryggja fjármagn í þau verkefni sem Landsvirkjun hyggst ráðast í. Hann segir ennfremur beina tengingu vera á milli lánshæfiseinkunnar ríkissjóðs og landsvirkjunnar en Standard og Poors lækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs fyrir innlendar skuldbindingar úr BBB í BBB- í gær. Lánshæfiseinkunn Landsvirkjunnar taki mið af því.

Þá segir Hörður þetta hafa áhrif á þær framkvæmdir sem Landsvirkjun hyggst ráðst í.

,,Við náttúrlega erum að skoða fjölmarga virkjanakosti en næstu virkjanakostir eru á N-austurlandi. Við erum að vinna í fjármögnun þar. Við höfum fulla trú á því að við munum tryggja fjármagn í þau verkefni, þrátt fyrir þetta. Þetta hjálpar samt ekki. Hver áhrifin nákvæmlega verða sjáum við ekki fyrr en á næstu vikum. Við höfum þó verið að fá aðgang á ýmsum stöðum að fjármagni og við treystum því að það haldi áfram en við verðum bara að sjá til."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×