Handbolti

Spekingur á TV2: Alfreð hegðar sér eins og Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari þýska stórliðsins Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari þýska stórliðsins Kiel. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Bent Nyegaard, handboltaspekingur dönsku TV2 sjónvarpsstöðvarinnar var ekki sáttur með Alfreð Gíslason, þjálfara þýska stórliðsins Kiel, og ummæli hans um danska dómara eftir að Barcelona sló Kiel-liðið út úr Meistaradeildinni í handbolta.

Alfreð gaf það í skyn að dómararnir hefðu verið undir pressu frá EHF um að sjá til það kæmust ekki þrjú þýsk lið í úrslitin þar sem HSV Hamburg og Rhein Neckar Löwen væru þegar komin í úrslitin.

„Ég veit það vel að hann segist ekki vera eins og Mourinho en hann verður bara að gera sér grein fyrir því að hann er alveg eins og Mourinho," sagði Bent Nyegaard en Jose Mourinho, þjálfari fótboltaliðs Real Madrid, fór hamförum í ásökunum sínum á hendur dómurum þegar Barcelona vann fyrri leikinn á móti Real Madrid í Meistaradeildinni í fótbolta.

„Þessi gagnrýni hans á ekki rétt á sér og er mjög ósanngjörn gagnvart dómurunum, gagnvart Barcelona-leikmönnunum, gagnvart þjálfurum liðsins og gagnvart öllu félaginu. Svona ummæli eiga ekki að heyrast," sagði Bent Nyegaard.

„Ég sá leikinn og þeir Mads og Martin dæmdu þennan leik óaðfinnanlega. Þetta var frábær handboltaleikur og dómararnir voru á sama klassa og leikmennirnir. Barcelona spilaði bara frábærlega í þessum leik," sagði Nyegaard.

„Það er alveg út í hött að henda fram einhverri samsæriskenningu um EHF og vera um leið að ýja óbeint að því að þeir Mads og Martin hafi þegið mútur frá Barcelona," sagði Nyegaard.

Barcelona vann báða leikina á móti Kiel, fyrst 27-25 á Spáni og svo 36-33 í Sparkassen-Arena í Kiel. Barcelona mætir síðan Guðmundi Guðmundssyni og lærisveinum hans í Rhein Neckar Löwen í undanúrslitunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×