Handbolti

Halda Sverre og félagar áfram að stríða toppliðunum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverre Andreas Jakobsson í leik á móti Hamburg á dögunum.
Sverre Andreas Jakobsson í leik á móti Hamburg á dögunum. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Sverre Andreas Jakobsson og félagar í Grosswallstadt taka á móti Rhein-Neckar Löwen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18.15 og verður í beinni útsendingu á Sport 3.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen, er búinn að koma liði sínu á mikið skrið eftir að hann kom heim frá HM en með liðinu spila eins og kunnugt er Ólafur Stefánsson, Róbert Gunnarsson og Guðjón Valur Sigurðsson.

Grosswallstadt hefur hinsvegar tekið stig af tveimur efstu liðunum í síðustu tveimur leikjum, vann 28-25 útisigur á THW Kiel 29. mars og náði síðan 22-22 jafntefli á móti toppliði HSV Hamburg 10. apríl. Nú taka þeir á móti liðinu í þriðja sæti, Rhein-Neckar-Löwen, sem þarf nauðsynlega á sigri að halda.

Rhein-Neckar-Löwen hefur unnið sjö deildarleiki í röð og er taplaust í þýsku deildinni á þessu ári. Liðið getur náð Kiel að stigum með sigri en liðin eru að berjast um 2. sætið. Grosswallstadt er 18 stigum og 7 sætum neðar í töflunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×