Handbolti

Guðjón Valur skoraði sjö mörk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Guðjón Valur Sigurðsson stimplaði sig inn í lið Rhein-Neckar Löwen í dag með því að skora sjö mörk er lið hans, Rhein-Neckar Löwen, vann öruggan sigur á Melsungen á útivelli, 37-28.

Guðjón Valur hefur lítið fengið að spila að undanförnu hjá Guðmundi Guðmundssyni, þjálfara liðsins, þar sem að þýski landsliðsmaðurinn Uwe Gensheimer hefur verið að spila vel í sömu stöðu.

Hann fékk þó tækifærið í dag og nýtti það vel. Róbert Gunnarsson spilaði einnig í dag og skoraði þrjú mörk. Ólafur Stefánsson skoraði tvö mörk fyrir Löwen.

Þá vann Hannover-Burgdorf mikilvægan sigur á Balingen, 26-25, á heiamvelli. Balingen var skrefi á undan lengst af í leiknum en Hannover-Burgdorf skoraði síðustu tvö mörk leiksins.

Sigurbergur Sveinsson skoraði þrjú mörk í leiknum, Hannes Jón Jónsson eitt en þeir Vignir Svavarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson ekkert. Vignir fékk þó þrjár brottvísanir í leiknum og þar með rautt.

Hannover-Burgdorf er nú með þrettán stig í fimmtánda sæti deildarinnar og styrkti því stöðu sína verulega í fallbaráttu deildarinnar í dag. Rhein-Neckar Löwen er í þriðja sætinu með 41 stig.

Grosswallstadt komst í dag áfram í undanúrslit EHF-bikarkeppninnar með tveggja marka sigri á franska liðinu St. Raphael á heimavelli, 25-23. Grosswallstadt tapaði fyrri leiknum á útivelli með eins marks mun en Sverre Jakobsson leikur með liðinu.

Sænska liðið Drott, sem Gunnar Steinn Jónsson leikur með, féll hins vegar úr leik í fjórðungsúrslitum Evrópukeppni bikarhafa í dag. Liðið vann Tremblay en France á heimavelli, 25-22, en náði ekki að vinna upp fimm marka tap í fyrri leik liðanna í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×