Handbolti

HM skilaði gríðarlegum hagnaði til sænska handboltasambandsins

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Frakkar fögnuðu sigri á HM í Svíþjóð.
Frakkar fögnuðu sigri á HM í Svíþjóð. Nordic Photos/Getty Images
Forsvarsmenn handboltaíþróttarinnar í Svíþjóð brosa breitt þessa stundina því í gær var greint frá því að heimsmeistaramótið sem fram fór í janúar s.l. skilaði um 450 milljóna kr. hagnaði. Þar fyrir utan er talið að samstarfsaðilar sænska handknattleikssambandsins hafi fengið um 180 milljónir kr. í hagnað af mótshaldinu.

„Þetta er mun betri niðurstaðan en við höfðum gert ráð fyrir," segir Arne Elovsson sem var í forsvari fyrir HM í Svíþjóð. Keppnin hefur að sögn Elovsson skilað miklu fyrir sænskan handbolta og mun meiri áhugi er á íþróttinni eftir að stórmótið fór fram.

Sænska handknattleikssambandið fær um 380 milljónir kr. í sinn hlut og um 70 milljónum verður skipt á milli aðildarfélaga víðsvegar um landið.

Forsvarsmenn sænska handknattleikssambandsins hafa ákveðið að nota féð til þess að efla uppbyggingarstarf sambandsins – með það að markmiðið að Svíar verði áfram í fremstu röð á heimsvísu. Og að sjálfsögðu ætla Svíarnir að sýna ráðdeild og yfirvegun þrátt fyrir mikinn hagnað og stór hluti af þessum 450 milljónum verður lagður til hliðar í sjóð fyrir komandi ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×