Handbolti

Björgvin Páll með stórleik í glæsilegum sigri á Montpellier - myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgvin Páll átti frábæran leik í marki Kadetten í kvöld.
Björgvin Páll átti frábæran leik í marki Kadetten í kvöld. Mynd/AP
Svissneskir fjölmiðlar halda vart vatni yfir frammistöðu landsliðsmarkvarðarins Björgvins Páls Gústavssonar er lið hans, Kadetten Schaffhausen, vann glæsilegan fimm marka sigur á franska liðinu Montpellier í kvöld, 31-26.

Þetta var fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en sá síðari fer fram um aðra helgi í Frakklandi.

Björgvin Páll var besti maður Kadetten í leiknum en hann lék allan leikinn og sýndi oft snilldartilþrif, að sögn svissneskra fjölmiðla sem hafa fjallað um leikinn. Hann varð alls 24 skot í leiknum, þar af þrjú víti.

Fjórir úr heims-, Evrópu og Ólympíumeistaraliði Frakklands leika með Montpellier, þeirra á meðal Nicola Karabatic sem skoraði fimm mörk í kvöld. Guillaume Joli skoraði þrjú mörk, Michael Guigou tvö en Samuel Honrubia komst ekki á blað. Fimmti landsliðsmaðurinn, William Accambray, gat ekki leikið með liðinu í kvöld vegna meiðsla.

Staðan í hálfleik var 17-11, Kadetten í vil, en þeir svissnesku gáfu ekkert eftir í síðari hálfleik og komust mest tíu mörkum yfir. Montpellier náði þó að berja frá sér á lokakaflanum og minnka muninn í fimm mörk.

Það gæti reynst mikilvægt fyrir síðari leikinn en það er ljóst að Björgvin Páll og félagar eru engu að síður í vænlegri stöðu.

Björgvin Páll er nýbúinn að jafna sig eftir að hann slasaðist á auga á æfingu íslenska landsliðsins fyrr í þessum mánuði.

Samantekt úr leiknum má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×