Handbolti

Átta mörk frá Ólafi voru ekki nóg fyrir Rhein-Neckar Löwen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Rhein-Neckar Löwen tapaði óvænt 27-32 á útvelli á móti franska liðinu Chambéry Savoie í síðasta leik sínum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í dag. THW Kiel hefur því þegar tryggt sér sigur í riðlinum þótt að lærisveinar Alfreðs Gíslasonar spili ekki síðasta leik sinn fyrr en á morgun.

Chambéry Savoie var 17-16 yfir í hálfleik en komst mest níu mörkum yfir í seinni hálfleiknum áður en strákarnir hans Guðmundar Guðmundssonar náðu að laga stöðuna í lokin. Þetta var aðeins annað tap Rhein-Neckar Löwen í tíu leikjum í Meistaradeildinni.

Ólafur Stefánsson átti mjög góðan leik ásamt norska línumanninum Bjarta Myrhol en það dugði ekki til. Ólafur skoraði átta mörk í leiknum þar af kom aðeins eitt markanna á vítalínunni. Róbert Gunnarsson og Guðjón Valur Sigurðsson skoruðu báðir eitt mark fyrir Rhein-Neckar Löwen í leiknum.

Barcelona vann 30-27 útisigur á slóvenska liðinu Celje Lasko og jafnaði Rhein-Neckar Löwen að stigum en Rhein-Neckar Löwen er ofar vegna betri árangurs í innbyrðisleikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×