Viðskipti innlent

Gullverð nær methæðum

Órói á fjármálamörkuðum olli því að metverð var greitt fyrir gull á alþjóðamörkuðum í gær. Gullforði Seðlabankans hefur haldist nær óbreyttur að stærð síðasta áratuginn, en hefur hins vegar áttfaldast í verði.

Gullverð náði methæðum í gær þegar únsan seldist á rétt tæplega 190 þúsund krónur á heimsmarkaði áður en það tók smávæilega dýfu, en gull hefur hækkað töluvert í verði frá áramótum. Ástæðan er einkum sú að fjárfestar leita í gull og þrýsta verðinu upp þegar þeir óttast um hefðbundnar eignir eins og hlutabréf og skuldabréf, en mikill órói hefur verið á mörkuðum vegna skuldavandans beggja vegna Atlantsála.

Þetta er framhald á þróun síðustu ára, en gull hefur þrefaldast í verði á innan við áratug. Margir seðlabankar seldu megnið af gullbirgðum sínum þegar gullverð var í lægð á árunum eftir aldamótin og hafa orðið af ævintýralegri ávöxtun á undanförnum árum vegna þess.

Seðlabanki Íslands á tæplega 64 þúsund únsur af gulli, tæp tvo tonn, sem að stærstum hluta er geymt í gullstöngum í Seðlabanka Bretlands. Litlar magnbreytingar hafa orðið á gullforðanum undanfarin ár, en verðmæti hans hefur hins vegar margfaldast. Árið 2000 var gullforðinn þannig bókfærður á tæplega 1400 milljónir, en hann hefur áttfaldast síðan þá með falli krónunnar og stökki gullverðs, og er nú bókfærður á meira en tíu milljarða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×