Handbolti

Króatar unnu Pólverja og tryggðu sér leik á móti Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Króatar tryggðu sér þriðja sætið í milliriðli 2 með því að vinna fjögurra marka sigur á Pólverjum í dag, 28-24 en bæði lið hefðu tryggt sig inn í forkeppni Ólympíuleikanna með sigri. Króatar byrjuðu ekki vel en sigur liðsins var aldrei í hættu í seinni hálfleik.

Pólverjar komust í 2-0, 6-3 og 7-4 þar sem Slawomir Szmal fór á kostum og varði átta skot á fyrstu 13 mínútum leiksins.

Króötum tókst þó að yfirvinna frábæra markvörslu Szmal (14 skot í fyrri hálfleik) og það að vera mikið útaf í fyrri hálfleiknum (12 mínútur á móti 2 mínútum hjá Pólverjum).

Króatar jöfnuðu í 7-7 með því að skora þrjú mörk í röð og komust síðan 11-9. Pólverjar jöfnuðu aftur en Krótar skoruðu tvö mörk á lokamínútu hálfleiksins og voru 13-11 yfir í hálfleik.

Króatar gáfu ekkert eftir í seinni hálfleik, náðu fljótlega þriggja marka forskoti og voru síðan með öruggt forskot út leikinn.

Króatar eru með fimm stig en Pólverjar eru með fjögur stig og mæta Ungverjum í hreinum úrslitaleik um 7. sætið sem jafnframt er síðasta sætið inn í forkeppni Ólympíuleikanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×