Maritech hefur hlotið verðlaunin „Samstarfsaðili ársins 2010" hjá Microsoft á alþjóðlegri ráðstefnu Microsoft, WPC 2010, Microsoft Worldwide Partner Conference, sem haldin var í Washington D.C. um miðjan júlí.
Í tilkynningu segir að fyrirtækið var valið úr alþjóðlegum hópi samstarfsaðila Microsoft sem veita viðskiptavinum markaðsmiðaðar lausnir byggðar á tækni frá Microsoft.
„Okkur er það mikil ánægja að tilkynna að Maritech á Íslandi hefur verið valið „Samstarfsaðili ársins 2010 hjá Microsoft," segir Allison Watson, varaforseti Worldwide Partner Group hjá Microsoft. „Maritech hefur skarað fram úr í gæðum og nýsköpun með því að samræma afburðaþekkingu á heimamarkaði og framúrskarandi lausnir og þjónustu sem mætir þörfum viðskiptavina."
Verðlaun voru veitt í ýmsum flokkum og sigurvegarar valdir úr hópi nær 3.000 samstarfsaðila Microsoft um allan heim.
„Það er mikill heiður og viðurkenning á góðum árangri Maritech í sölu og innleiðingum Microsoft Dynamics NAV á Íslandi að vera valin „Samstarfsaðili ársins á Íslandi". Góðar staðlaðar lausnir fyrir kröfuharða neytendur og reyndustu sérfræðingar landsins á sviði viðskiptahugbúnaðar eru lykillinn að góðum árangri Maritech," segir Jón Heiðar Pálsson, sviðsstjóri sölusviðs Maritech.
Maritech var stofnað árið 1995 og hefur þróast yfir í að vera einn stærsti söluaðili Microsoft Dynamics NAV á Íslandi. Innan Maritech starfar öflugur hópur sérfræðinga með áralanga reynslu í Microsoft lausnum og leggur fyrirtækið sérstaka áherslu á ráðgjöf, hugbúnaðargerð og innleiðingu hugbúnaðar ásamt öflugri og persónulegri þjónustu.