Fastir pennar

Lokaðar leiðir, brenndar brýr

Þorvaldur Gylfason skrifar

Íslendingar notuðu 20. öldina til að ná Dönum í efnahagslegu tilliti. Það tókst. Við upphaf heimastjórnar 1904 var Ísland hálfdrættingur á við Danmörku mælt í kaupmætti þjóðartekna á mann. Fyrir hrun 2008 virtist Ísland standa jafnfætis Danmörku og hafði gert um alllangt skeið. Þessi samanburður hvílir á tölum um þjóðartekjur og mannfjölda, en hann segir ekki alla söguna. Kaupmannahöfn var um aldamótin 1900 löngu orðin að háreistri heimsborg, en Reykjavík var þá lágreist þyrping og fátækleg, ef frá eru talin fáein glæsileg hús, sem Danir höfðu reist, svo sem Dómkirkjan, Menntaskólinn og Alþingishúsið.

Þjóðarauður Dana - byggingarnar, atvinnutækin, menntun fólksins og fleira - var þá að ætla má margfaldur á við þjóðarauð Íslands miðað við mannfjölda, en um þetta eru engar tölur til. Menn þurfa ekki annað en að líta í kringum sig í Kaupmannahöfn og Reykjavík til að sjá, að þjóðarauður Dana á hvert mannsbarn hlýtur enn í dag að vera mun meiri en auður Íslendinga, nema ósýnileg orkan í iðrum Íslands eigi eftir að reynast þeim mun verðmætari. Auk þess er menntun mannaflans á mun hærra stigi í Danmörku en á Íslandi, sé miðað við skólagöngu, svo sem menntaskýrslur OECD hafa lengi lýst. (Alþjóðabankinn hefur nýlega birt skýrslu, sem sýnir meiri þjóðarauð á mann 2005 á Íslandi en í Danmörku. Mat bankans byggir á framreikningi uppsveiflunnar fram að hruni og hlýtur að þarfnast endurskoðunar í ljósi hrunsins.)



Ljós og skuggar

Hvernig fórum við að því að ná Dönum? Skoðum björtu hliðina fyrst. Menntun mannaflans tók stakkaskiptum. Almennt læsi frá aldamótunum 1800 reyndist nútímanum vel. Mikil vinnusemi hélzt í hendur við lítið atvinnuleysi flest árin. Margt annað tókst einnig vel, svo sem vélvæðing fiskiskipaflotans, útfærsla landhelginnar úr þrem mílum 1901 í 200 mílur 1976 og virkjun fallvatna og jarðvarma í áföngum eftir 1940. Allt þetta glæddi hagvöxtinn og bætti lífskjörin. Skuggahliðin á málinu er sú, að stjórnvöld fengust ekki til að uppræta ýmislega landlæga óhagkvæmni (fákeppni, innflutningshöft, spillingu). Til að breiða yfir óhagkvæmnina var gömlu bragði beitt. Landsmenn gengu á eignir sínar og söfnuðu skuldum til að hífa upp tekjurnar. Til dæmis jukust skuldir þjóðarbúsins svo á kreppuárunum, að Bretar töldu Ísland vera á heljarþröm 1938-39. „Blessað stríðið" bjargaði Íslandi fyrir horn.

Til að vega upp óhagræðið af völdum hagstjórnarfarsins gengu menn á fiskstofnana, söfnuðu skuldum erlendis og vanræktu landið. Fyrstu atriðin tvö skiptu miklu á efnahagsvísu, ofveiðin og skuldasöfnunin, sem stafaði öðrum þræði af rýrnun innlends sparnaðar af völdum verðbólgunnar. Þörfin fyrir að virkja erlent sparifé til framkvæmda varð meiri en ella, úr því að Íslendingar fengust ekki sjálfir til að spara. Mikil verðbólga er alls staðar og ævinlega til marks um vonda hagstjórn og veika innviði.

Hugmyndin um efnahagslegt jafnræði Íslendinga og Dana var í reyndinni röng, þar eð hún var reist á samanburði landsframleiðslu á mann í löndunum tveim án nauðsynlegs tillits til breytinga á eignum og skuldum þjóðarbúsins til langs tíma litið. Hrunið 2008 átti sér langan aðdraganda.

Nú standa Íslendingar aftur langt að baki Dönum í kaupmætti þjóðar­tekna á mann, og hafa erlendar lánastofnanir þó þurft að afskrifa erlendar einkaskuldir að andvirði um fimmfaldrar landsframleiðslu Íslands auk mikilla afskrifta innlendra skulda. Ríkisstjórnin sýnir fá merki þess, að hún skilji nauðsyn þess eða þori að takast á við óhagkvæmt búskaparlag frá fyrri tíð – með einni undantekningu, hálfvolgri umsókn um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Stjórnin virðist hvorki hafa þingstyrk né þrek til að standa við og ljúka eigin neyðaráætlun með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlanda. Lamandi gjaldeyrishöft, sem hefðu að réttu lagi átt að leggjast af nú í haust, munu þurfa að vera áfram við lýði í eitt til tvö ár enn að minnsta kosti, því að án þeirra myndi gengi krónunnar falla að nýju. Peningastjórnin er óbreytt frá því fyrir hrun og átti þó talsverðan þátt í hruninu. Þar bólar hvergi á nýrri hugsun.

Gömlu leiðirnar eru lokaðar. Nú er ekki lengur hægt að moka upp fiski til að fela veilurnar, því að fiskimiðin eru löngu fullnýtt og meira en það, og ekki heldur hægt að slá lán í útlöndum, því að enginn vill lána Íslendingum fé. Orkan er eftir. Hætt er við, að litið verði á landvernd sem lúxus og hún verði látin sitja á hakanum líkt og víða í Afríku. Íslendingar þurfa að hugsa sinn gang og líta til Norðmanna, sem hafa nýtt sínar orkulindir án landspjalla, og uppræta gömlu óhagkvæmnina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×