Innlent

Bestla gaut átta grísum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Grísirnir eru þegar farnir að sýna sig fyrir gestum garðsins. Mynd/ Húsdýragarðurinn.
Grísirnir eru þegar farnir að sýna sig fyrir gestum garðsins. Mynd/ Húsdýragarðurinn.
Dýrahirðar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum höfðu í nógu að snúast í fjósinu í morgunsárið. Gyltan Bestla gaut átta grísum upp úr klukkan sjö. Gotið gekk vel en nokkur tími leið á milli grísa sem Bestla notaði til að ná kröftum. Að sögn dýrahirða í garðinum tók gölturinn Gullinbursti, sem býr í næstu stíu, gotinu með mikilli yfirvegun og lét það hvorki trufla morgunlúrinn hjá sér né hádegislúrinn.

Unnur Sigurþórsdóttir dýrahirðir segir að ekki sé búið að gefa grísunum nöfn. „Þetta er svona Babe eitt til átta enn sem komið er," segir Unnur. Unnur segir að grísirnir séu strax farnir að sýna sig fyrir gestum Húsdýragarðsins. „Þeir eru bara úti í fjósi núna," segir Unnur. Gyltunni er hleypt til þeirra reglulega til að gefa þeim að drekka en annars fær hún ekki að vera nálægt þeim vegnu hættu á að hún leggist ofan á þá.

Dýrahirðar segja að næst sé von á fjölgun í fjárhúsinu enda séu ærnar orðnar miklar um sig. Unnur segir að búast megi við lömbum á tímabilinu 5. - 10 maí. Níu ær eru í garðinum og segir Unnur að þær ættu allar að vera lembdar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×