Viðskipti innlent

Steinunn: Glitnismálið rekið hér heima

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steinunn Guðbjartsdóttir segir niðurstöðuna vera vonbrigði.
Steinunn Guðbjartsdóttir segir niðurstöðuna vera vonbrigði.
„Dómarinn komst að þessari niðurstöðu. Hann taldi að málið ætti heima á Íslandi en hann setti hins vegar tvö skilyrði sem stefndu verða að uppfylla," segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. Hæstiréttur í New York vísaði í dag frá stefnu slitastjórnarinnar gegn sjömenningum sem stefnt hafði verið vegna ásakana um að hafa með sviksamlegum og ólöglegum hætti haft fé af bankanum.

Skilyrðin eru af tvennum toga segir Steinunn. „Í fyrsta lagi að þeir myndu ekki mótmæla lögsögu íslenskra dómstóla. Því einhverjir af þessum aðilum eru jú búsettir utan Íslands," segir Steinunn. Í öðru lagi að sjömenningarnir myndu ekki mótmæla fullnustu íslensks dóms yfir eignum erlendis. „Það eru skilyrðin fyrir því að málið fari ekki áfram hér að þeir gangist undir þetta," segir Steinunn.

Steinunn segir niðurstöðuna í New York vissulega vera vonbrigði, en hana verði að virða. „Þessu máli er náttúrlega langt því frá að vera lokið," segir Steinunn. Hún býst við því að málið verði rekið hér heima og að hægt sé að stíga næstu skref áður en langt er um liðið. Hún segir að sú vinna sem þegar hafi farið fram muni nýtast. Máli sínu til stuðnings segir hún að lögmennirnir sem hafi unnið fyrir slitastjórnina ytra hafi verið í samstarfi við íslenska lögmenn.


Tengdar fréttir

Skaðabótamál Glitnis: Frávísunarkrafa tekin fyrir í dag

Málflutningur vegna frávísunarkröfu hinna stefndu í skaðabótamáli Glitnis í New York hefst klukkan fjögur í dag að íslenskum tíma. Sjömenningarnir og PriceWaterHouseCoopers, endurskoðunarfyrirtæki Glitnis, krefjast þess að málinu verði vísað frá dómi í New York.

Máli Glitnis gegn sjömenningum í New York vísað frá

Dómari í New York hefur vísað frá máli slitastjórnar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og sex viðskiptafélögum hans. Dómari komst að þeirri niðurstöðu að vísa bæri málinu frá á þeim forsendum að allir málsaðilar séu íslenskir og því beri að flytja málið á Íslandi. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar staðfestir þetta í samtali við Vísi.

Jón Ásgeir: Förum líklega í skaðabótamál

„Ég er ánægður með niðurstöðuna. Þetta er búinn að vera erfiður tími frá því 11. maí. Slitastjórnin fór yfir strikið gagnvart okkur," segir Jón Ásgeir Jóhannesson, í samtali við Pressuna. Dómari í New York vísaði í dag máli slitastjórnar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri og sex viðskiptafélögum hans. Hann segir að slitastjórnin hljóti að sæta ábyrgð og hætta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×