Viðskipti innlent

Skaðabótamál Glitnis: Frávísunarkrafa tekin fyrir í dag

Steinunn Guðbjartsdóttir.
Steinunn Guðbjartsdóttir.

Málflutningur vegna frávísunarkröfu hinna stefndu í skaðabótamáli Glitnis í New York hefst klukkan fjögur í dag að íslenskum tíma. Sjömenningarnir og PriceWaterHouseCoopers, endurskoðunarfyrirtæki Glitnis, krefjast þess að málinu verði vísað frá dómi í New York.

Slitastjórn Glitnis hóf í maí á þessu ári málaferli fyrir dómstóli í New York ríki í Bandaríkjunum gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding, Hannesi Smárasyni, Pálma Haraldssyni og fleirum en slitastjórnin telur að Jón Ásgeir og viðskiptafélagar hans hafi með sviksamlegum og ólöglegum hætti haft fé af bankanum sem nemi meira en tveimur milljörðum bandaríkjadala, eða um 230 milljörðum króna á núverandi gengi. Málið var þingfest fyrir rétti í borginni þann 11. maí. Lögmenn stefndu vilja að málinu verði vísað frá, og segja að það eigi ekki heima í New York, þar sem allir málsaðilar séu íslenskir. Slitastjórn Glitnis og lögmenn hennar halda því hins vegar fram að bandarískir fjárfestar hafi verið blekktir.

Glitnir banki aflaði 2 milljarða bandaríkjadala með skuldabréfaútgáfu þar í landi haustið 2007. Slitastjórn Glitnis heldur því fram að féð hafi runnið til Jóns Ásgeirs og tengdra aðila og því hafi erlendir fjárfestar verið blekktir. Bæði slitastjórn Glitnis og lögmenn stefndu hafa fengið lögfræðiálit frá íslenskum lögmönnum, sem lögð hafa verið fyrir dómstólinn. Þar er því ýmist haldið fram að íslenska dómskerfið ráði vel við mál af þessu tagi, eða færð rök fyrir því að málið eigi heima fyrir dómstóli í New York.

Munnlegur málflutningur vegna frávísunarkröfunnar fer fram í dag, eins og áður segir, en óvíst er hvenær niðurstaða liggur fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×