Viðskipti innlent

Reikningurinn líklega ekki í eigu Fl Group

Ragnhildur hefði átt að geta fengið allar upplýsingar um reikninga í eigu FL Group.
Ragnhildur hefði átt að geta fengið allar upplýsingar um reikninga í eigu FL Group.

Allt bendir til að reikningurinn í Lúxemborg, sem féð frá FL Group fór inn á árið 2005, hafi ekki verið í eigu FL Group. Málið er til rannsóknar, en fyrrverandi forstjóri félagsins hætti meðal annars vegna þessarar grunsamlegu millifærslu.

Um það leyti sem Ragnhildur Geirsdóttir tók við sem forstjóri FL Group sumarið 2005 fékk hún vitneskju um að Hannes Smárason, þáverandi stjórnaformaður félagsins, hafi í apríl sama ár látið millifæra 3 milljarða króna af reikningum FL Group til Kaupþings í Lúxemborg. Ragnhildur sagði í viðtali á Stöð 2 fyrir skömmu að bankinn í Lúx hafi ítrekað neitað að gefa henni eða öðrum stjórnendum FL Group upplýsingar um peningana og borið við bankaleynd. Þetta er ein af ástæðum þess að hún lét af störfum sem forstjóri félagsins, að eigin sögn.

Morgunblaðið bendir á það í dag að reglur um bankaleynd í Lúxemborg séu í stórum dráttum svipaðar reglum hér á landi. Ragnhildur hefði því átt að geta fengið allar upplýsingar um reikninga í eigu FL Group.

Af þessu megi ráða að peningurinn hafi verið lagður inn á reikning í eigu einhvers annars fyrirtækis eða einstaklings. Ragnhildur sagði í viðtali fyrir stuttu að hún hefði ekki sannanir fyrir því hvert peningurinn fór en hún hafi séð úprentun úr Excel skjali frá Kaupþingi þar sem fram komu vísbendingar um að peningarnir hefðu á einhverjum tímapunkti verið millifærðir á Fons.

Málið er til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Ekki náðist í Ragnhildi fyrir hádegisfréttir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×