Viðskipti innlent

Europol rannsakar starfsemi Kaupþings

Sigríður Mogensen skrifar
Europol hefur hafið rannsókn á starfsemi Kaupþings. Þá er rannsókn efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar á bankanum enn í gangi.

Eins og fréttastofa greindi frá í gær gagnrýnir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, fjármálaeftirlitið harðlega í bréfi til forsætisráðherra og annarra ráðamanna. Hann segir að eftirlitið hafi aldrei kallað hann til yfirheyrslu, þrátt fyrir alvarlegar ásakanir í sinn garð. Gunnar Andersen, forstjóri FME, vísar gagnrýni Hreiðars Más á bug. Hann segist ekki geta tjáð sig um einstök mál en sagði þó í samtali við fréttastofu að Fjármálaeftirlitið vísi ekki málum til sérstaks saksóknara nema eftir að hafa greint upplýsingar ítarlega.

Sérstakur saksóknari sjái síðan um yfirheyrslur, það sé ekki í verkahring FME. Hreiðar Már vitni til rannsóknar fjármálaeftirlitsins breska á tilteknu afmörkuðum máli þar, rannsókn FME snúi hins vegar að málefnum bankans í heild.

Þá bendir Gunnar á að tvö dómsstig hafi litið málið það alvarlegum augum að þau staðfestu gæsluvarðhaldið yfir Hreiðari Má á sínum tíma. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði í samtali við fréttastofu í dag að góð samvinna væri milli Fjármálaeftirlitsins og embættis hans, og hafi það samstarf nýst vel. Hann vildi þó ekki tjá sig um bréf Hreiðars Más að öðru leyti.

Eins og fram hefur komið þá eru málefni Kaupþings til rannsóknar hjá bresku efnahagsbrotadeildinni, en samkvæmt heimildum fréttastofu stendur sú rannsókn enn yfir.

Heimildir fréttastofu herma einnig að Europol hafi nú hafið rannsókn á ýmsum þáttum í starfsemi Kaupþings banka fyrir hrun. Bankinn starfaði á alþjóðlegum mörkuðum og safnaði til að mynda miklu lánsfé á mörkuðum í Evrópu í gegnum skuldabréfaútgáfu í Lúxemborg. Rannsókn Europol snýr meðal annars að því að kanna hvort fjárhagslegar upplýsingar í skuldabréfaútboðum bankans hafi verið rangar eða villandi á sínum tíma. Það geti varðað við alþjóðalög. Rannsóknin teygir anga sína út fyrir Evrópu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×