Viðskipti innlent

Eigendur Saxbygg lánuðu sjálfum sér 5,3 milljarða

Skiptastjóri þrotabús fjárfestingarfélagsins Saxbygg hefur stefnt fyrri eigendum fyrirtækisins vegna sölu á erlendum fasteignaverkefnum til félaga þeim tengdum, lánveitingum Saxbygg til eigenda og ráðstöfunar eigna til fyrirtækja þeim tengdum.

Lánin sem eigendur Saxbygg veittu sjálfum sér samanstanda af norskum krónum, evrum og pundum og hljóða upp á 5,3 milljarða króna á núvirði. Skiptastjóri vill að viðskiptunum verði rift.

Einar Gautur Steingrímsson skiptastjóri segir að eigendur Saxbygg, Nóatúnsfjölskyldan svokallaða og eigendur Byggingafyrirtækisins Gunnars og Gylfa, hafi stofnað fjögur einkahlutafélög. Þau heita Cromwell Holdings, sem var móðurfélag þriggja annarra: Stenia, Aldersgate Invest og Brandenburg Invest.

Inni í hverju hinna þriggja dótturfélaga voru erlend fasteignaverkefni; í Stenia norsk fasteignaverkefni, Aldersgate hélt utan um fasteignaverkefni í London í Bretlandi og í Brandenburg var verkefni í Berlín í Þýskalandi. Svo virðist sem Saxbygg hafi veitt félögunum þremur kúlulán til kaupa á fasteignunum. Eignirnar eru ekki lengur í félögunum og telur skiptastjóri að þær hafi verið seldar til fyrirtækja ytra árið 2008. Engir fjármunir virðast hafa skilað sér í bækur félaganna við sölu þeirra.

Skiptastjóri gerir bæði athugasemdir við að eignirnar voru seldar með kúlulánum, að þeim hafi verið ráðstafað áfram og því ekki innan seilingar. „Þetta virðist hafa yfirbragð venjulegra viðskipta. Ekkert var greitt við söluna heldur átti að greiða það síðar. Það sættum við okkur ekki við," segir skiptastjóri.

Björn Ingi Sveinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Saxbygg, er framkvæmdastjóri allra fyrirtækjanna sem um ræðir. „Ég hef ekkert um þetta að segja, ekki nokkurn skapaðan hlut," segir hann í samtali við Fréttablaðið.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×