Viðskipti innlent

Starfsmenn óski eftir gjaldþrotaskiptum félaga sinna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
John Mack, varaformaður stjórnar Íslandsbanka, telur að hvatakerfið hafi verið gagnrýnivert.
John Mack, varaformaður stjórnar Íslandsbanka, telur að hvatakerfið hafi verið gagnrýnivert.
Stjórn Íslandsbanka beinir því til starfsmanna sinna að einkahlutafélög núverandi starfsmanna bankans, sem stofnuð voru fyrir tilstilli Glitnis banka hf. og voru hluti af hvata- og tryggðakerfi bankans, verði gefin upp til gjaldþrotaskipta. Um er ræða 9 einkahlutafélög sem fengu lán hjá Glitni banka hf. á árinu 2008 upp á samtals um 4,2 milljarða króna til hlutabréfakaupa í bankanum.

Níu núverandi starfsmenn Íslandsbanka voru í hópi starfsmanna sem í maí 2008 þáðu tilboð vinnuveitanda síns um stofnun einkahlutafélags í þeirra eigu, segir í tilkynningu frá Íslandsbanka. Félögunum var veitt lán til kaupa á hlutabréfum í Glitni Banka hf. Þetta fyrirkomulag var kynnt fyrir starfsmönnunum af hálfu bankans sem hluti af hvata- og tryggðarkerfi bankans með sambærilega virkni og kaupréttur. Hlutabréfin mátti ekki selja fyrr en allt að 3 árum liðnum, samkvæmt lánasamningi.

Hlutabréfakaupin voru tilkynnt til regluvarðar Glitnis banka. Samkvæmt upplýsingum stjórnar var enginn arður greiddur út úr félögunum og fjárhagslegur ávinningur umræddra starfsmanna var því enginn af þessum samningum, samkvæmt tilkynningu frá Íslandsbanka.

„Stjórn Íslandsbanka telur þessa tegund hvatakerfis gagnrýniverða. Þar sem lánveitingar af þessu tagi hafa verið mikið í umræðunni telur stjórnin rétt að upplýsa um niðurstöðu sína opinberlega. Það er niðurstaða stjórnar að lánamál umræddra einkahlutafélaga verði afgreidd með sama hætti og önnur sambærileg mál í samræmi við almennar lánareglur bankans. Það hefur í för með sér að félögin fari í gjaldþrotameðferð," segir John E. Mack, varaformaður stjórnar Íslandsbanka, sem á sæti í starfskjaranefnd bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×