Viðskipti innlent

Fóður til lífrænnar ræktunar

Bústólpi framleiðir fóður fyrir nautgripi, sauðfé, svín, hross og alifugla.
Bústólpi framleiðir fóður fyrir nautgripi, sauðfé, svín, hross og alifugla.

Vottunarstofan Tún hefur staðfest að fyrirtækið Bústólpi ehf. uppfylli kröfur um lífrænar aðferðir við framleiðslu á kjarnfóðri. Bústólpi er fyrsta sérhæfða kjarnfóðurfyrirtækið hér á landi sem hlýtur vottun til lífrænnar framleiðslu á kjarnfóðri.

Með vottun Túns er staðfest að Bústólpi ehf. noti viðurkennd hráefni við framleiðslu á hinu vottaða kjarnfóðri, að lífræn hráefni séu á öllum stigum vinnslu aðgreind öðrum efnum og afurðum, að aðferðir við úrvinnslu og blöndun samræmist reglum um lífræna framleiðslu og að gæðastjórnun, skráningar og merkingar uppfylli settar kröfur.

„Þessi vottun hefur mikla þýðingu fyrir Bústólpa þar sem hún gerir fyrirtækinu kleift að þjónusta einnig þá vaxandi sprotagrein sem lífrænn landbúnaður er,“ segir Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Hér á landi stunda nú að jafnaði á milli sextíu og sjötíu aðilar vottaða lífræna ræktun, vinnslu lífrænna hráefna og söfnun náttúruafurða. Þessir aðilar framleiða nokkur hundruð tegundir vottaðra afurða fyrir markað hérlendis og til útflutnings.- shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×