Viðskipti innlent

Leikhúsgestum fækkaði um 14% milli ára

Samanlagður fjöldi gesta á leiksýningar leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga innanlands var tæplega 356 þúsund á síðasta leikári. Það samsvarar því að hver landsmaður hafi séð eina leiksýningu á leikárinu. Áhorfendum á síðasta leikári fækkaði um 56 þúsund frá því á leikárinu þar á undan. Það jafngildir fækkun gesta um 14 af hundraði.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að á síðasta leikári voru settar á fjalirnar 242 uppfærslur á vegum leikfélaga, leikhópa og leikfélaga, sem sýndar voru 2.240 sinnum.

Á síðasta leikári voru starfrækt sex atvinnuleikhús með aðstöðu í fimm leikhúsum. Á vegum þeirra voru 12 leiksvið sem rúmuðu 2.853 gesti í sæti. Settar voru á svið 93 uppfærslur í leikhúsunum á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Uppfærslum fjölgaði um sjö frá fyrra leikári. Af tegund einstakra verka sem voru færð á fjalirnar voru leikrit flest, eða 49 talsins.

Uppfærslur með verkum eftir íslenska höfunda voru 40, en eftir erlenda 36. Uppfærslur eftir innlenda og erlenda höfunda voru 17. Samanlagður fjöldi sýninga í leikhúsum á síðasta leikári var 1.158. Fjöldi leikhúsgesta stóð nánast í stað frá leikárinu á undan, eða hátt í 276 þúsund.

Atvinnuleikhópar sem settu upp eina eða fleiri leiksýningu á síðasta leikári voru 46 talsins samanborið við 39 leikárið 2007/2008. Á síðasta leikári settu hóparnir á svið 82 uppfærslur innanlands, þar af voru 17 í samstarfi við leikhúsin. Leikrit og verk eftir innlenda höfunda eru uppistaðan í uppfærslum atvinnuleikhópa, eða um tvær af hverjum þremur uppfærslum.

Atvinnuleikhópar sýndu innanlands 726 sinnum á leikárinu. Það er um 62% fækkun sýninga milli leikára. Heildaraðsókn að sýningum atvinnuleikhópa á síðasta leikári var 73.470. Sýningargestum atvinnuleikhópa fækkaði um 105 þúsund á síðasta leikári frá næsta leikári á undan og um 139 þúsund frá leikárinu 2006/2007 er gestir á sýningar atvinnuleikhópa voru flestir.

Á næstliðnu leikári færðu 42 áhugaleikfélög á svið 89 leiksýningar víðs vegar um landið. Þrjár af hverjum fjórum uppfærslum voru leikverk eftir innlenda höfunda. Samanlagður fjöldi flytjenda á síðasta leikári var hátt í 2.000 manns. Félögin sýndu 602 sinnum fyrir ríflega 40 þúsund gesti. Gestum að sýningum áhugaleikfélaga fjölgaði umtalsvert milli leikára, eða um 35 af hundraði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×