Viðskipti innlent

Mest notað yfir sumartímann

Sala milli ára borin saman 
Hlutfallsaukning fjölda seldra 3G nettengla hjá Vodafone fyrstu átta mánuði áranna 2009 og 2010.
Sala milli ára borin saman Hlutfallsaukning fjölda seldra 3G nettengla hjá Vodafone fyrstu átta mánuði áranna 2009 og 2010.

Sala á 3G nettenglum fyrstu átta mánuði ársins hefur þrefaldast hjá Vodafone frá sama tímabili í fyrra. Nettenglarnir hafa einnig verið nefndir 3G-pungar, en um er að ræða háhraðanettengingu fyrir tölvur um þriðjukynslóðar farsímanet.

Fram kemur í tilkynningu Vodafone að bæði árin hafi sala nettenglanna verið mest yfir sumarmánuðina og notkunin mest á vinsælum sumarhúsasvæðum.

„Sala á 3G nettenglum (pungum) hófst hér á landi snemma árs 2008 og eftir að hafa farið frekar rólega af stað hefur algjör sprenging orðið í sölunni. Nettenglarnir hafa lækkað mikið í verði, auk þess sem þjónustuleiðir hafa breyst og kostnaður við notkun hefur minnkað mikið,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Um leið er varað við kostnaði sem fylgt geti notkun nettenglanna erlendis, sér í lagi utan evrópska efnahagssvæðissins. „Innan EES eru í gildi reglur sem tryggja, að lokað er fyrir notkun nettenglana þegar kostnaðurinn er kominn upp í 50 evrur.“

Þá kemur fram að gagnanotkun í farsímum hafi jafnframt margfaldast, bæði vegna aukinna afkasta dreifikerfanna og betri símtækja sem auðveldi notkun tölvupósts og Netsins í símanum. „Þá hafa vinsældir samskiptasíðunnar Facebook aukið gagnanotkun í farsímum til mikilla muna og nú er svo komið, að 50 prósent af öllum gögnum sem notendur hala niður í símtækin sín eru tilkomin vegna Facebook.“ - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×