Innlent

Álag á starfsmönnum mikið vandamál

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM.
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM.

Álag á vinnustöðum hefur aukist til muna en laun lækka eða standa í stað, samkvæmt nýlegri kjarakönnun Bandalags háskólamanna (BHM). Um sjötíu prósent félagsmanna telja að álag á vinnustöðum þeirra hafi aukist, en svipuð niðurstaða kom fram fyrir ári í hliðstæðri könnun, þar sem hlutfallið var 60 prósent. Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, segir niðurstöðuna ekki koma á óvart.

„Hið opinbera heldur allri þjónustu gangandi og óskertri en dregur markvisst úr kostnaði," segir Guðlaug. „Það er verið að fækka höndum en ekki verkefnum."

Guðlaug segir álagið sýna sig jafnt á opinberum og almennum vinnumarkaði, en ráðningarbann ríkisins geri það að verkum að tímabundnir ráðningarsamningar séu látnir renna út og ekki endurnýjaðir.

Hún lýsir yfir gríðarlegum áhyggjum varðandi niðurstöðurnar en meira en helmingur svarenda sagðist einnig finna fyrir auknu álagi innan veggja heimilisins.

„Gífurleg þreyta er að koma fram hjá því fólki sem sífellt er að reyna að brúa bilið," segir hún. „Það er mjög alvarlegt mál til langs tíma litið." - sv












Fleiri fréttir

Sjá meira


×