Fastir pennar

Kögunarhóll

Þorsteinn Pálsson skrifar
Hví ekki?Fjármálaráðherra skaut því fram í vikunni að réttast væri að hafa þjóðaratkvæði um fiskveiðistjórnunararlögin. Yfirlýsingin hefur ugglaust verið hugsuð sem gaffall á útgerðarmenn í þeirri refskák sem nú er tefld milli þeirra og ríkisstjórnarinnar.

Í því ljósi að kannanir sýna jafnan andstöðu meirihluta þjóðarinnar við fiskveiðistjórnunarkerfið sýnist leikur ráðherrans vera býsna sterkur. Ekki er þó víst að ráðherrann hafi hugsað marga leiki fram í tímann. Hvernig færi ef hann væri tekinn á orðinu? Hverjir yrðu þá næstu leikir?

Áframhaldandi gildi núverandi fiskveiðistjórnunarlaga verður ekki lagt í þjóðaratkvæði. Ráðherrann yrði þá að fá samþykkt lög á Alþingi um niðurfellingu laganna, sem þjóðin fengi síðan tækifæri til að staðfesta eða synja. Afleiðingin yrði lagalegt tómarúm. Fullvíst er að ráðherrann treystir sér ekki til að bera ábyrgð á því.

Ráðherrann á því ekki annan leik í stöðunni en að semja frumvarp að nýrri heildarlöggjöf um fiskveiðistjórnun og fá það samþykkt á Alþingi. Gildistaka nýja kerfisins yrði síðan háð samþykki þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu. Er það einhverjum vandkvæðum bundið?

Mat á því hlýtur að byggjast á reynslu. Rétt tuttugu ár eru frá því að núverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra og þáverandi flokkar þeirra samþykktu gildandi fiskveiðistjórnunararlöggjöf. Einörð andstaða þeirra hófst strax daginn eftir og hefur því staðið í tvo áratugi.

Andstaðan hefur alltaf verið kosningamál. Á hinn bóginn hefur þeim ekki tekist á þessum tuttugu árum að setja fram heildstæðar tillögur um annars konar kerfi og því síður að færa þær í lagabúning. Það er alltaf einfalt að vera á móti en oft flókið að koma með lausnir.

Ef menn taka áskorun fjármálaráðherrans gæti því svo farið að í endataflinu stæði gaffall á hann sjálfan. Hví ekki?







ÞrasRíkisstjórnin hefur ákveðið að svipta útvegsmenn öllum aflaheimildum á ákveðnu árabili. Fyrsti hluti sviptingarinnar er tímasettur fyrsta september á þessu ári. Forsætisráðherra hefur margsinnis ítrekað að við það verði staðið.

Ríkisstjórnin hefur engar tillögur sett fram um það sem koma á í staðinn. Hún virðist líta svo á að það sé hlutverk annarra. VG hefur að vísu lýst lauslegum hugmyndum. Þær eru túlkaðar á þann veg að ekki eigi að skerða hár á höfði nokkurs en allir sem vilja veiða meira eða vinna meiri fisk fái tækifæri. Mismunandi túlkanir fara eftir því í hvaða plássi menn eru staddir hverju sinni.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar kalla eftir tillögum útvegsmanna. Með öðrum orðum: Þeir segjast vera á móti kerfi sem útvegsmenn og sjómenn eru sáttir við. En með því að engar hugmyndir um lausnir eru á ríkisstjórnarborðinu eiga útvegsmenn að koma með þær til þess að ráðherrarnir verði sáttir.

Ríkisstjórnin hótar að svipta og útvegsmenn að sigla í land. Umræða af þessu tagi kallast þras.





Útvegurinn og þjóðinTilgangur fiskveiðistjórnunar er tvíþættur: Annars vegar að stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskistofna. Hins vegar að lækka kostnað við að veiða hvert tonn. Þriðja markmiðið hefur vikið. Það fólst í því að fjölga störfum og halda byggðum gangandi.

Í Frakklandi er þetta þriðja félagslega markmið alls ráðandi. Þar eru tífalt fleiri sjómenn og margfalt fleiri fiskiskip að veiða minna af fiski en hér. Sá veiðiskapur kostar miklu meira. Franskir skattborgarar greiða mismuninn. Þær breytingar sem sjávarútvegsráðherra hefur nú þegar gert eru sniðnar að slíkum félagslegum markmiðum.

Að baki félagslegum lausnum af þessu tagi býr snoturt hjartalag. Öfugt við það sem er á Íslandi eru sjómenn og útvegsmenn í Frakklandi sáróánægðir og í stöðugu stríði af því að þeir fá aldrei nóg af snotru hjartalagi. Almenningur í Frakklandi er hins vegar sáttur. Sjávarútvegurinn er svo smár að skattgreiðslurnar eru ekki íþyngjandi.

Hér er sjávarútvegurinn höfuðatvinnugrein. Enginn kostur er því á að greiða offjárfestinguna með sköttum. Eigi að skipta um kerfi verðum við því að fara í það far sem var fyrir 1990 og láta almenning borga brúsann með viðvarandi lækkun á gengi krónunnar.

Þegar hismi orðræðunnar hefur verið greint frá kjarnanum eru bara tveir kostir varðandi fiskveiðistjórnun. Annar byggist á markaðslausnum. Hinn á félagslegum lausnum. Sá fyrri er hagkvæmari fyrir þjóðina í heild. Sá síðari þjónar hagsmunum þeirra sem fá viðbótarstörfin.

Böggull fylgir skammrifi, hvor kosturinn sem er valinn. Eigi þjóðhagslega hagkvæmari kosturinn að ganga upp þarf þjóðin að sætta sig við að útgerðin skili arði. Það vefst fyrir mörgum. Félagslegi kosturinn veldur hins vegar óánægju hjá þeim sem fyrir eru í greininni og þurfa að bera hluta kostnaðarins með lægri tekjum og öllum almenningi sem greiðir hinn hlutann með gengisfalli krónunnar.

Flestir vilja báða kostina. Það er ekki hægt fremur en að gera hvort tveggja að geyma kökuna og borða hana. Óánægjan með ríkjandi kerfi stafar af því að margir stjórnmálamenn telja kjósendum trú um að unnt sé að fara báðar leiðir samtímis. Þeir sýna hins vegar engar útfærðar tillögur því þeir vita að það dæmi gengur ekki upp. Fyrir vikið snýst umræðan upp í þrátefli og þras.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×